Saga - 2010, Page 7
sigrún sigurðardóttir
elín: Ljósmynd af konu
Í gömlum gylltum og nokkuð rispuðum ramma er mynd af ungri
konu. Hárið er ljóst, kannski ljósskollitað, og tekið aftur svo að hátt
ennið nýtur sín vel. eyrun eru oddhvöss og dálítið álfaleg, nefið vel
formað en örlítið skakkt. Hakan áberandi. Augabrúnirnar dökkar en
vel dregnar. Augun eru mjög falleg, dökk, blíð og ákveðin í senn.
Augnalokin þung. Varirnar eru þykkar og jafnvel munúðarfullar, neðri
vörin slútir örlítið niður. Það sést glitta í tennurnar, tvær heillegar hvít-
ar framtennur sem bera vott um velmegun og góða um hirðu.
Þannig mætti lýsa ljósmynd af elínu Hafstein sem tekin var seint
á 19. öld. Þessi lýsing er þó takmörkuð og ef til vill alls ekki sann-
gjörn því að hún felur ekki í sér þá sérstöku áru sem ljósmyndin hef-
ur náð að fanga. Þýski heimspekingurinn Walter Benjamin talaði um
hvernig ljósmyndatækni 19. aldarinnar krafðist þess að persóna,
sem verið var að mynda, lifði sig inn í augnablikið.1 Í stað þess að
myndavélin stöðvaði gang tímans á einu augnabliki væri líkt og
persónan sjálf staldraði við, héldi niðri í sér andanum og stæði utan
við flæði tímans. Hún fangaði tímann, rann saman við hann. Þegar
við horfumst í augu við elínu Hafstein er líkt og tímaheildir skarist.
Við skynjum augnablik sem ekki aðeins tilheyrir fortíðinni heldur
rennur saman við upplifun okkar í nútímanum. Áran sem ljós-
myndin nær að fanga er kjarninn í persónuleika hvers og eins.
Franski ljósmyndafræðingurinn Roland Barthes leitaði örvænt-
ingarfullur að áru móður sinnar í gömlum ljósmyndum og skrifaði
um það bókina La chambre claire: Note sur la photographie (Birtuher -
bergið: Athugasemd um ljósmyndina) árið 1980.2 Sú bók hefur allar göt-
Saga XLVIII:1 (2010), bls. 7–13.
F o R S Í Ð U M y N D I N
1 Walter Benjamin, „Saga ljósmyndunar í stuttu máli“. Þýð. Hjálmar Sveinsson.
Listaverkið á tímum fjöldaframleiðslu sinnar. Þrjár ritgerðir. Ritstj. Hjálmar Sveins son.
Atvik 2 (Reykjavík: Bjartur – ReykjavíkurAkademían 2000).
2 Roland Barthes, La chambre claire: Note sur la photographie (París: Éditions du
Seuil, Gallimard 1980).
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 7