Saga - 2010, Page 8
ur síðan verið eitt helsta viðmið fræðilegrar umræðu um ljósmyndir
enda felur hún ef til vill í sér kjarna alls þess sem gerir ljósmyndina
ólíka bæði öðrum sjónrænum miðlum og tungumálinu. Barthes álít-
ur ljósmyndina bæði fela í sér sannleika og blekkingu um það sem
eitt sinn var. Hann tekur portrettmyndina sem dæmi og bendir á að
hver einstök ljósmynd af manneskju sýni ekki bara manneskjuna
eins og hún var á einu tilteknu augnabliki heldur sýni hún líka við -
fangsefnið, þ.e. manneskjuna: 1) eins og hún heldur að hún sé,
2) eins og hún vill vera, 3) eins og ljósmyndarinn heldur að hún sé,
4) eins og ljósmyndarinn vill að hún sé, 5) eins og hlut sem ljós-
myndarinn notar til að koma list sinni á framfæri, og að lokum
6) eins og hún er.
Það er gaman að velta þessari skilgreiningu á portrettmyndinni
fyrir sér þegar maður horfir á ljósmyndina af elínu Hafstein. Hver
var hún þessi kona? Hvað segir þessi ljósmynd um hana? Hvað
græðum við á því að fjalla um þessa ljósmynd, á því að breyta upp-
lifun okkar af því sem við sjáum í orð?
Með því að færa veruleikann í orð erum við að beita hann ákveðnu
ofbeldi. ofbeldið felst ef til vill fyrst og fremst í því að við neyðumst
til að gera lítið úr veruleikanum. Við náum aldrei fyllilega utan um
allt það sem er með orðunum einum saman. Við skiljum heilmikið
eftir, tökum aðeins afmarkaðan hluta af því sem er, skilgreinum
veruleikann með orðum, gefum honum merkingu og teljum um leið
að lykillinn að veruleikanum sé falinn í þessari merkingu. Skiln -
ingur okkar á veruleikanum takmarkast þannig við þá afmörkun
sem skilgreiningin nær yfir. en þannig förum við á mis við ansi
margt. Það er margt sem fellur utan við lýsingu okkar á veruleikan-
um, margt sem við getum ekki fært í orð. engu að síður höldum við
áfram, höldum áfram að beita veruleikann ofbeldi með því að þröngva
honum inn í merkingarsamhengi tungumálsins.
Við getum lýst ljósmyndinni af elínu Hafstein með orðum. Þannig
getum við dregið athygli áhorfandans að einstökum þáttum í ljós-
myndinni sem hann kann að hafa litið fram hjá. en um leið höfum
við ef til vill neikvæð áhrif á upplifun áhorfandans. Hann hættir að
sjá það sem fyrst vakti athygli hans og beinir sjónum sínum nú
þangað sem textinn leiðir hann. Textinn takmarkar þannig upplifun
áhorfandans. kannski er það þess vegna sem margir forðast að tala
um ljósmyndir. Flestir þekkja frasann mynd segir meira en þúsund orð,
en hann felur í sér þau sterku skilaboð að í myndinni búi sannleikur
sigrún sigurðardóttir8
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 8