Saga - 2010, Page 27
Sveinn svo að Bretum væri kunnugt um að Þjóðverjar undirbyggju
hernám Danmerkur, það gæti skollið á hvenær sem væri. Slíkt
mundi hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Ísland og stjórnskipulega
stöðu þess.4 Sveinn settist strax niður og samdi bréf til forsætis -
ráðherra, Hermanns Jónassonar. Hermann greindi meðráðherrum
sínum frá efni bréfsins „og nokkrum öðrum trúnaðarmönnum“.5
Hvað skyldi til bragðs taka ef Danmörk yrði hernumin næstu
daga? Það mál kallaði á skjótar ákvarðanir. Hermann hafði heldur
engar vöflur á því. opinberlega sagði hann fátt. Strax eftir nýárið
kallaði forsætisráðherra til sín hæstaréttardómarana þrjá, einar
Arnórsson, Gizur Bergsteinsson og Þórð eyjólfsson, og prófessorinn
í stjórnlagafræði, Bjarna Benediktsson, og fól þeim að undirbúa sam-
bandsslit við Danmörku og semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá
fyrir Ísland. Það var sannarlega flókið og vandasamt verk.
Hinir lærðu fjórmenningar settust yfir stjórnarskrá konungsríkis -
ins Íslands frá 1920 og unnu nýja stjórnarskrá upp úr henni.
Mikilvæg heimild er til um starf fjórmenninganna. Í gögnum, sem
Logi einarsson afhenti Þjóðskjalasafninu 23. maí 1955, eftir andlát
föður síns, einars Arnórssonar, er að finna fundargerðir sem einar
ritaði um starf hópsins.6 Af þeim má ráða að umboð þeirra hafi
verið að gera „þær breytingar á stjórnarskránni, sem leiðir af niður-
falli dansk-íslenzkra sambandslaga og af því, að forseti kemur í stað
konungs“; enn fremur kemur þar fram að það sé „[s]amkvæmt ósk-
um ríkisstjórnarinnar … að sameinað alþingi kjósi forseta“.
Fyrsti fundur þeirra er 6. janúar 1940. en daginn áður, föstudag-
inn 5. janúar, höfðu þeir „átt tal við Hermann Jónasson forsætisráð-
herra á skrifstofu hans í stjórnarráði. Mæltist ráðherra þá til þess, að
framangreindir fjórir menn gengju til samstarfs um samningu
yfirlýsingar um þjóðréttarstöðu landsins og frumvarps að stjórnar-
skrá handa því, er leggja mætti til umræðna réttra aðilja, ef
hernaðaraðgerðir í yfirstandandi stórstyrjöld kynnu að gera skjótar
ráðstafanir í þessum efnum nauðsynlegar. Þótti viðurmælismönn-
um ráðherra einsætt að verða við tilmælum hans.“
hverjar eru sögulegar rætur 26. greinar …? 27
4 Túlkun Sveins á orðum Colliers er sennilega ekki alveg rétt; innrás Þjóðverja í
Danmörku er ekki endanlega ákveðin fyrir en 1. mars 1940 (Weserübung-áætl-
unin); sjá t.d. Bo Lidegaard, Kampen om Danmark 1933–1945 (kaupmannahöfn:
Gyldendal 2005), einkum bls. 156–177. Þór Whitehead rekur þetta mál í bók
sinni Milli vonar og ótta (Reykjavík: Vaka-Helgafell 1995), bls. 170–173.
5 Sjá Sveinn Björnsson, Endurminningar, bls. 269.
6 Þjóðskjalasafn Íslands. Forsætisráðuneytið 1989-DC/4. Gerðabókin er merkt LXI.
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 27