Saga - 2010, Page 33
Bjarni Benediktsson var við nám í stjórnlagafræði í Berlín 1930–
1932. Hann var því gagnkunnugur þýskri stjórnskipan á tíma
Weimar-lýðveldisins. Hann hefur þekkt ákvæði 73. gr. þýsku stjórn-
arskrárinnar frá 11. ágúst 1919 sem sagði að forsetinn gæti lagt
samþykkt lagafrumvörp frá ríkisþinginu undir þjóðaratkvæði.24
Vera má að hugmyndin sé þaðan. Því ákvæði stjórnarskrárinnar
beitti forseti ekki en samkvæmt öðru ákvæði hennar fóru fram tvær
þjóðaratkvæðagreiðslur í Weimar-lýðveldinu og var sú síðari nýlega
afstaðin þegar Bjarni kom til Þýskalands.25
Þau gögn, sem hér hefur verið bent á, sýna að hugmyndin um
þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar lagasynjunar forseta verður ekki
rakin til þeirrar breytingar á stjórnarskrárfrumvarpinu að láta
þjóðkjörinn forseta koma í stað þingkjörins. Þjóðkjör forseta kemur
fyrst inn í stjórnarskrárfrumvarpið við 2. umræðu í fyrri deild, í lok
febrúar 1944, þótt það hafi vissulega verið til umræðu nokkru
áður.26 Brynjólfur Bjarnason sýnist vera sá fyrsti sem túlkar þetta
sem tvo óaðskiljanlega hluti, þegar við 2. umræðu í síðari deild, 4.
mars 1944.27 Tilraun Brynjólfs til að spyrða þetta tvennt saman ber
keim af eftiráskýringu. Brynjólfur talar enn fremur um þjóðkjörinn
forseta sem „umboðsmann þjóðarinnar gagnvart þinginu“, en þingið
sækir líka umboð sitt til þjóðarinnar, sömu þjóðar. Það verður því að
fara varlega í að túlka afgreiðslu Alþingis á stjórnarskránni í febrúar
og mars 1944 að þessu leyti eða sjá í henni eitthvað meira en efni
standa til.
Óyggjandi svar við spurningunni um hvers vegna þjóðar-
atkvæðagreiðsla í kjölfar lagasynjunar kemur inn í fyrstu drög
stjórnarskrárinnar liggur ekki fyrir. Slíkt svar gæfi okkur gleggri
mynd af tilurð 26. gr. stjórnarskrárinnar.
hverjar eru sögulegar rætur 26. greinar …? 33
24 73. gr. hófst með þessum orðum: „ein vom Reichstag beschlossenes Gesetz ist
vor seiner Verkündung zum Volksentscheid zu bringen, wenn der
Reichspräsident binnen eines Monats es bestimmt.“
25 Þær þjóðaratkvæðagreiðslur byggðust á rétti kjósenda til að stofna til þeirra
(sbr. ákvæði í 73. gr. stjórnarskrárinnar). Fyrri atkvæðagreiðslan var 20. júní
1926, um upptöku eigna aðalsins, en hin síðari 22. desember 1929, um greiðslu
stríðs skaðabóta (Icesave-mál þess tíma!). Bæði málin féllu þar eð ekki tókst að
fá meiri hluta kjósenda til þátttöku í atkvæðagreiðslunum, en það var skilyrði
sem stjórnarskráin setti (75. gr.) fyrir því að hnekkja ákvörðun þingsins.
26 Um það vitna orð eysteins Jónssonar í þingumræðunum: „N[efndin] hefur
orðið þess vör, að mjög mikið fylgi er meðal þjóðarinnar fyrir því, að forsetinn
verði þjóðkjörinn.“ (Alþingistíðindi B 1944, d. 59).
27 Alþingistíðindi B 1944, d. 103–105.
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 33