Saga - 2010, Page 67
bókmenntasögu allt frá sjötta áratugnum, var markmið Harolds
Love með þessu riti að horfa á menningu miðilsins, þ.e.a.s. handrita
eftir tilkomu lausstafaprents, í stað þess að einblína á einstök skáld
og einstök handrit.16 „Það sem hefur vantað fram á þennan dag“,
skrifaði Love um miðjan tíunda áratuginn, „er vitund um að hvert
og eitt þessara tilvika sé hluti af víðfemara fyrirbæri — handritaðri
útgáfu — sem gegndi vissu hlutverki innan menningar og miðlunar
texta ekki síður en prentuð útgáfa“.17 Í bók sinni kannar Love innviði
þessarar menningar og leggur til hugtök til frekari greiningar.
Love skiptir lykilhugtakinu handrituð útgáfa (e. scribal publica-
tion) í þrjá undirflokka eftir því hver var ábyrgur fyrir framleiðslu
hinna handskrifuðu eintaka. Fyrsti flokkurinn er höfundarútgáfa
(e. author publication), þar sem höfundur texta leyfir og hefur sjálfur
umsjón með framleiðslu og dreifingu handritaðra eintaka. Þessi leið
var tíðkuð til að tryggja stýrða dreifingu texta innan afmarkaðs
hóps, einkum meðal efristéttarhöfunda og í lokuðum hópum í
kringum þá.18 Öllu markaðsmiðaðari og nær hinum vaxandi prent-
markaði og skrifstofum síðmiðalda var það sem Love kallar útgáfu
athafnamanna (e. entrepreneurial publication). Tilgangurinn með slíkri
framleiðslu var einfaldlega tekjuöflun fyrir skrifarann eða bóksal-
ann og hér réð eftirspurn meiru um gang framleiðslunnar og
útbreiðslu en vilji höfundar.19 Það voru ekki síst satírískir og póli-
tískt eða trúarlega umdeildir textar sem gengu út eftir slíkum
óform legum brautum. Þriðja gerð handritaðrar útgáfu sem Harold
Love greinir er notendaútgáfa (e. user publication), flokkur sem tekur
yfir ólíkar greinar framleiðslu á handrituðu efni til einkanota.
Algengasta form slíkrar miðlunar var afritun stakra texta inn í safn-
rit (e. miscellanies) eða svonefndar sýnisbækur (e. commonplace books)
textinn á tíma fjöldaframleiðslu sinnar 67
16 Dæmi um eldri verk eru: J.W. Saunders, „The Stigma of Print: A Note on the
Social Bases of Tudor Poetry“, Essays in Criticism 1/1 (Janúar 1951), bls.
139–164. — Alan MacColl, „The Circulation of Donne’s Poems in Manuscript“,
John Donne: Essays in Celebration. Ritstj. A. J. Smith (London: Methuen 1972),
bls. 28–46. — Mary Hobbs, Early Seventeenth-Century Verse Miscellany
Manuscripts (Aldershot: Scholar Press 1992).
17 Harold Love, The Culture and Commerce of Texts, bls. 4. „What is lacking to date
has been an awareness that each of these things is part of a larger phenome-
non — scribal publication — which had a role in the culture and commerce of
texts just as assured as that of print publication“.
18 Sama heimild, bls. 50–51.
19 Sama heimild, bls. 73–79.
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 67