Saga - 2010, Page 96
breyttum og fjölfaglegum rannsóknum á notkun hins handritaða
miðils í Frakklandi, á Spáni og víðar sem hver með sínum hætti hafa
lagt sitt af mörkum til endurskoðunar á miðlun og menningu texta á
tíma prentvæðingar evrópu.
Þessar rannsóknir hafa oft og tíðum farið saman við aukna
almenna áherslu fræðimanna í hug- og félagsvísindum á félagslega
þætti menningarsögu, hversdagsmenningu og atbeina einstaklinga
og hópa gagnvart stofnunum samfélags, og jafnframt farið saman
við vaxandi tortryggni gagnvart tvíhyggjupörum og einhyggju
hinnar ríkjandi skipunar. Í upphafi þessarar greinar var lagt til
atlögu við hin sjálfgefnu tengsl milli nývæðingar og greiningar á
textamiðlun sem birtast í tilvitnuðum orðum Jóns Helgasonar pró-
fessors frá miðbiki 20. aldar og eru enn undirliggjandi í skilningi
okkar á henni. Þeir sem nýttu sér hinn handritaða miðil til sköpun-
ar, miðlunar, menntunar, skemmtunar og tjáningar á „prentöld“
voru í þessu ljósi ekki „sannir miðaldamenn“ sem unnu „á miðalda-
vísu“, fáskiptnir og fávísir um hina nýju upplýsingahraðbraut
Guten bergs. Vissulega var þróun á sviði upplýsingatækni á Íslandi
lengi vel heft af hugarfarslegum, pólitískum og ekki síst efnahags-
legum hindrunum, enda þótt lausstafaprentið hafi numið hér land
tiltölulega snemma. Þannig má segja að eiginleg prentvæðing eigi
sér fyrst stað á Íslandi á síðari hluta 19. aldar þegar veraldleg bóka-
útgáfa, byggð á markaðslegum forsendum, stígur sín fyrstu skref.
engu að síður er því haldið fram hér að það sé skekkjandi sjónar-
horn að greina framleiðslu, miðlun og neyslu texta á síðari öldum
einungis út frá hagfræði fjöldaframleiðslunnar. Hin hægvirka en
nærtæka leið að miðla eða safna sér lesefni í handrituðu formi hélt
áfram að gegna mikilvægu hlutverki fyrir samfélög, þjóðfélagshópa,
einstaklinga og ákveðnar textagreinar þar sem prentverkið hentaði
ekki eða stóð ekki til boða. Sú grundvallarvending að rannsaka
framleiðslu, miðlun og neyslu handritaðs efnis á eigin forsendum,
en ekki prentmenningar eða vöntunar á henni, er mjög mikilvæg
fyrir skilning á bókmenningu á Íslandi eftir siðaskipti.
davíð ólafsson96
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 96