Saga - 2010, Page 109
sínu til stuðnings, og þótt hann viðurkenni að ekki sé allt fullkomið
í Sovétríkjunum, átelur hann þá „þöngulhausa“ sem bíta „sig fasta
við ágallana“ og lætur í veðri vaka að hvorki „smásálir né þöngul-
hausar“ séu færir um að „skilja Sovétríkin í allri þess dýpt“ (67).
Þórbergur Þórðarson segist hreint út hafa það að markmiði að
„fræða“ fólk (9) og veltir hann því sérstaklega upp hvað Íslendingar
séu tregir til að afla sér „réttra upplýsinga um Sovétríkin“ (10).
Hann gefur sterklega í skyn að þar sem hann hafi „aldrei verið
kommúnisti“ (9) og hafi nú leitað sér þekkingar úr „úrvals bókum
og vitnisburði ‘óljúgfróðra manna’“ þá sé hann að vissu leyti átorítet
um Sovétríkin eins og þau eru í raun og veru. Þórbergur var „sann-
færður um, að sérhvert atriði, sem máli skiftir í þessari bók, er full-
komlega sannleikanum samkvæmt“ (10). Í öllum skrifum Þórbergs
má greina mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart Íslendingum. Á sama
hátt og kenna þurfti sósíalískt uppeldi, hafði hann að markmiði að
fræða Íslendinga og leiðrétta ranghugmyndir þeirra um landið í
austri. Þannig segir hann t.d. sérstaklega frá því, þegar hann sér fólk
dansa og skemmta sér, að nú þurfi að leiðrétta „einhver blöð hér
heima“ sem höfðu haldið því fram að búið væri að banna dans í
Rússlandi.
Þó að Áskell Snorrason hafi farið í ferð sína eftir síðari heims-
styrjöld hef ég kosið að flokka bók hans með ferðalýsingum þre-
menninganna frá fjórða áratugnum. Í landi lífsgleðinnar er að mörgu
leyti svipuð bókunum fjórum frá því fyrir stríð enda var Áskell
greinilega hugfanginn af sósíalismanum og þó svo hann hafi heim-
sótt landið eftir síðari heimsstyrjöld, þegar aðstæður voru gjörólíkar
frá því á fyrri hluta fjórða áratugarins, var Stalín enn við völd og það
hafði greinilega sín áhrif. Áskell segist í inngangi hafa skráð hjá sér
í minnisbækur allt það sem honum „þótti máli skipta, eftir því sem
tími og ástæður leyfðu“ (6) og á þeim byggir hann frásögn sína.37
Hann segist sökum plássleysis ekki geta fjallað um allt sem hann sá
og eflaust verði einhverjir vonsviknir með áherslur bókarinnar en
tekur fram að gestgjafarnir hafi gert sér „mjög far um að veita okk-
ur sem sannastar upplýsingar um hvað eina“ (6). Frásögn Áskels er
því að mörgu leyti lík Rauðu hættunni því lærdómsgildi bókarinnar
er honum greinilega mikilvægt.
„ekkert venjulegt skemmtiferðalag“ 109
37 Það kemur einnig fram í bókum Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar,
kristins Andréssonar, Thors Vilhjálmssonar og Braga Sigurjónssonar að þeir
hafi skráð ýmislegt í dagbækur eða minniskompur meðan á ferðalaginu stóð.
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 109