Saga - 2010, Page 118
hörmungum umsátursins var unnið af kappi við að varðveita stytt-
ur og minjar keisaratímans og eftir stríðið var miklum fjármunum
veitt í að endurreisa mikilfengleika borgarinnar.45 Þessi stefnu-
breyting sovéskra stjórnvalda virðist hafa farið að mestu eða öllu
leyti framhjá erlendum gestum, bæði á fjórða áratugnum og síðar
eins og dæmin hér sýna.
Bragi Ásgeirsson furðar sig einnig á þessari enduruppbyggingu
í byltingarlandinu sjálfu: „keisararnir blóðsugu þjóð sína til sköp-
unar glæsibygginga þessara, þjóðin gerði uppreisn gegn þeim hung-
ursköttum og drápu keisaravaldið af höndum sér. Nú stoltar þjóðin
sig af fáu meir en þessum keisaratímalistum, sem ætluðu hana lif-
andi að drepa, meðan þær voru í sköpun“ (154). enginn höfund-
anna virðist heldur kæra sig um þá skýringu að hallir og listmunir
keisaratímans höfðu aðdráttarafl fyrir erlenda aðkomumenn sem
þekktu til rússneskra bókmennta 19. aldarinnar og litu á þennan
tíma sem mikilvægan í menningarsögu evrópu. Þó segir Bragi frá
því að eysteinn Jónsson, formaður sendinefndarinnar, hafi minnst á
að hann langaði að sjá rússneskt þríeyki „eins og lesa mætti um í
skáldsögum frá keisaratímanum“ (187), og gestgjafarnir komu
sendinefndinni skemmtilega á óvart með skógarför í slíku farartæki.
Í elstu ferðalýsingunum er lögð áhersla á að í Sovétríkjunum sé
að finna nýtt þjóðskipulag og nýtt fólk. Allt sem tilheyrir gamla tím-
anum verður að skammaryrði og andstæðurnar birtast alls staðar —
í andlitum, klæðnaði, borgarsvip og götumyndum. Ferðalýsingar
síðari tíma eru gagnrýnni á þessar skörpu andstæður og draga
mikið úr þeim. Það er frekar að höfundar síðari tíma ýi að því að
Sovétríkin hafi ekki náð að fylgja Vesturlöndum eftir í framboði og
útstillingu á neysluvarningi. Þær athugasemdir voru reyndar í
nokkru samræmi við hugmyndir og áróður krústsjovs um að auka
lífsgæði og framleiðslu neysluvarnings í Sovétríkjunum á sjötta ára-
tugnum, og er ekki úr vegi að álykta sem svo að nýjar áherslur
kalda stríðsins á lífsgæðakapphlaup til viðbótar við vígbúnaðar-
kapphlaupið á sjötta áratugnum hafi skilað sér inn í athuganir
ferðalanganna. Þótt áfram sé að finna gagnrýni á neysluhyggju og
sérstaklega auglýsingamennsku Vesturlanda í ferðalýsingunum, má
rósa magnúsdóttir118
45 Doktorsritgerð Steven Maddox er besta heimildin um uppbyggingu Leningrad
eftir stríðið. Steven Maddox, Healing the Wounds. Commemorations, Myths,
and the Restoration of Leningrad’s Imperial Heritage, 1941–1950. Ph.D.-ritgerð
frá University of Toronto 2008.
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 118