Saga - 2010, Síða 130
ljósmyndunar fram að því.4 Boyer, sem safnaði öllu sem við kom
ljósmyndun, var í sambandi við bóksala, safnara og umboðs sala um
allan heim, sem sendu gjarnan til hans kjörgripi og handrit áður en
þeir auglýstu víðar. Boyer var sérlega áhugasamur um nítjándu aldar
bækur sem ljósmyndir höfðu verið límdar inn í (eins og tíðkaðist
áður en prentlistin náði tökum á prentun ljósmynda í bókum). Safn
hans af slíkum eintökum var eitt það stærsta í heimi.5 Í handriti
Howlands eru einmitt 25 ljósmyndir. Þær hafa væntanlega vakið
athygli Boyers og dagbókin þannig ratað til Chicago. Boyer var eini
eigandi handritsins eftir daga Howlands svo vitað sé. Hvað varð um
aðrar bækur Howlands er ekki vitað og má vera að önnur handrit
um aðrar ferðir hans leynist einhvers staðar.
Handritið er fallega og fagmannlega bundið inn í þykka leður-
kápu með marmarapappír innan á spjöldunum. Bókmerki How -
lands er innan á kápum að framan og aftan. Merkið sýnir skjaldar-
merki í miðaldastíl. Undir skildinum standa orðin „fortitudo et
fidelitas“ („styrkur og tryggð“) og umhverfis er skrifað með „kelt-
nesku“ letri: „Að lestri loknum, sendu mig heim til S.S. Howland.“6
Það er ekki ljóst hverjum handritið var ætlað til lestrar, en af bók-
merkinu má ráða að því var ætluð vist í bókasafni Howlands sjálfs.
Handritið er skrifað með fagurri hendi, pappírinn hreinn og blað -
síðurnar sléttar, og því má ætla að hér sé um hreinskrift að ræða en
ekki dagbókina úr sjálfri ferðinni. Vísbendingar í textanum, svo sem
nafnabrengl sem ekki er leiðrétt þrátt fyrir að rétt sé farið með síðar,
benda til lítillar eða engrar ritstjórnar eða lagfæringa á upprunalega
textanum við hreinskriftina. Það að skriftinni hrakar dálítið eftir því
sem á líður gæti bent til þess að Howland hafi hreinritað verkið
sjálfur.
Innbundið handritið er 27 cm × 21 cm × 5 cm. Blaðsíðurnar eru
26,6 cm × 19,7 cm, með prentuðum línum með 1,9 cm bili en teikn -
uðum spássíustrikum. Í handritinu eru 153 blöð, þ.e.a.s. 306 blaðsíður.
Þar af eru 25 síður með áfestum ljósmyndum, 5 með blýantsteikning-
um og 16 með póstkortum eða prentuðum myndum úr tímaritum.7
karl aspelund130
4 Sjá „The Boyer Collection“, Image: Journal of Photography of the George Eastman
House. oct. 1953 Vol II, No. 7, bls. 42–48.
5 „The Boyer Collection“, bls. 47–48.
6 „When you’ve read me — send me home to — S.S. Howland“.
7 Blýantsteikningarnar eru ómerktar en eru líklega eftir Howland. Beekman er
einn nefndur með nafni á þeim. T.d. stendur „Beekman’s pony“ undir einni en
„our quarters“ undir annarri, hvort tveggja með sama blýanti og sömu hendi.
Saga vor 2010 — NOTA (9.5.)_Saga haust 2004 - NOTA 11.5.2010 12:53 Page 130