Breiðfirðingur - 01.05.2018, Síða 60
BREIÐFIRÐINGUR60
Næsti dagur var uppstigningardagur. Þá kvaddi ég konu Torfa til viðtals og bað
hana lofa mér að vera, þar til Torfi kæmi. Hún kvað þess ekki þörf, því von hefði
verið á mér. En ég lét í ljós að hér mundi um misskilning að ræða.
Um kvöldið kom Torfi. Ég falaði viðtal hans að morgni þegar hann ætti hægt
með. Næsta morgun kveður hann mig til viðtals. Það fyrsta sem hann sagði var:
„Ef við eigum að talast við, þá verðum við að þúast.“ Ég sagði honum öll deili á
mér og hvað hefði knúið mig til þessarar ferðar eins og getið er um hér að framan.
Einnig orsökina til að ég skrifaði honum ekki um beiðnina að mega koma.
Þegar Torfi hafði hlýtt á frásögn mína, kvað hann sjálfsagt að veita mér áheyrn,
því ég væri búinn að hafa svo mikið fyrir að framkvæma hugmynd mína. Ég
sagðist fús til að borga með mér. En hann svaraði því til að nógur tími væri til að
tala um það síðar. Sá grunur minn reyndist réttur, að ég var ekki sá sem búist var
við. Von var á pilti af Fjöllum með sama nafni, sem aldrei kom.
Ég var röskar 5 vikur í Ólafsdal; alltaf við jarðyrkustörf – nýrækt – hesta og
verkfæra notkun. Þegar gjöra átti upp reikning minn við Torfa fyrir dvöl mína
þar, var ekki við komandi að ég borgaði með mér. Dæmið snörist við. Hann gaf
mér 18 kr. gullpening, sem ég geymdi sem minjagrip, þar til í stríðinu 1914–18,
að neyð varð til að nota þurfti.
Ég tók Skálholt í Bitru, með því til Akureyrar, og með Hólar til Breiðdalsvíkur;
þar 3. júlí. – Innvortis ánægja mín var mikil yfir því að hafa aflað mér þeirrar
þekkingar sem ég þráði.
Vorið 1899 fékk ég frá Torfa plóg, herfi, kerru ásamt nauðsynlegum aktygjum.
Frá Torfa hafði ég líka fyrirmynd að túnherfi og ristuspaða.
1962
Guðmundur Árnason
Minnsta sveitarfélagið
Helgafellssveit er minnsta sveitarfélagið við Breiðafjörð. Íbúar eru yfirleitt
um 60 talsins. Sveitarfélagið nær yfir 250 ferkílómetra og er númer 50 í
röðinni eftir stærð sveitarfélaga en númer 71 eftir íbúafjölda. Oft hefur
verið rætt um sameiningu þess og Stykkishólms og Grundarfjarðar en
ekkert hefur orðið úr því.