Breiðfirðingur - 01.05.2018, Page 113
BREIÐFIRÐINGUR 113
Haukur Jóhannesson
Ölkeldur og ölkeldu -
jarðhiti á Snæfellsnesi
Jarðhiti er fremur lítill á Snæfellsnesi og svo einkennist hann af því að í vatninu er mikið magn kolsýru (CO2). Aftur á móti eru fleiri ölkeldur á Snæfellsnesi
en annars staðar í landinu. Ástæðan fyrir þessu er líklega sú að undir nesinu
eru djúpstæð kólnandi kvikuhólf sem eru að afgasast. Kolsýran streymir upp til
yfirborðs og blandast grunnvatninu og kemur fram sem ölkeldur. Hitastig í öl
keldunum fylgir hitastigi grunnvatns á svæðinu.
Kortið hér til hliðar sýnir dreifingu ölkeldna og jarðhita á Snæfellsnesi.
Reyndar nær kortið og yfirlitið í meðfylgjandi grein suður í Mýrasýslu, það
er allt suður í Hraunhrepp. Á kortinu sést líka að það eru hvergi volgrur eða
jarðhiti af neinu tagi norðan við Hvammsfjörð innan við Helgafellssveit,
hvergi á Skógarströnd. Ekkert sést til slíkra tíðinda í náttúrunni fyrr en
kemur inn í Hörðudal í Dalasýslu. Svo sést að það er jarðhiti í Reykjadal
í Dölum, það er sá hiti sem notaður er fyrir Búðardalsþéttbýlið. Þá sést
að það er jarðhiti eins og allir vita að Laugum í Sælingsdal, gulur punktur.
Svo sést utar með norðanverðum Hvammsfirðinum jarðhiti, blár punktur,
í hlíðinni fyrir ofan Breiðabólsstað á Fellsströnd. Síðan ekki söguna meir
á Klofningsfjallgarðinum né við Gilsfjörð. Það fer svo heldur að lifna
yfir jarðhitanum þegar kemur norður fyrir Gilsfjörð, auðvitað aðallega
á Reykhólum sem allir þekkja en það er ekkert um það á þessu korti.
Í næstu grein í næsta hefti Breiðfirðings fjallar Haukur Jóhannesson,
jarðfræðingur, um jarðhita í Dalasýslu og í Austur-Barðastrandarsýslu.
Í síðasta hefti skrifaði hann um Vestur-Barðastrandarsýslu. Ætlun
Breiðfirðings er að gefa greinarnar út allar saman í sérprenti þegar allt er
komið í hús. Breiðfirðingur kann Hauki bestu þakkir fyrir þetta stórmerka
framlag til upplýsingar um byggðarlagið. Sumir segja að við séum farin
að teygja okkur nokkuð langt það er allt norður í Arnarfjörð og suður í
Hraunhrepp. En náttúran þekkir ekki einu sinni gömlu sýslumörkin hvað
þá nýju byggðamörkin sem skiptir engu máli.