Breiðfirðingur - 01.05.2018, Page 119
BREIÐFIRÐINGUR 119
á breidd). Um 200 metrum norðan við gilið er geysimikið kalkhrúður sem nær
frá Köldukvísl upp í fjallsræturnar. Hrúðrið myndar stóra flatvaxna bungu sem
er alsett smáum augum. Rennsli úr hverju auga fyrir sig er lítið, en heildarrennsli
er um 1–2 l/s. Hitinn er víða 15–18°C en mestur er hitinn efst á skildinum um
19°C. Að sögn Gunnars Guðbjartssonar, bónda á Hjarðarfelli, hefur mælst um
20–30°C hiti þarna, en mjög tímafrekt yrði að mæla hitann í hverju einasta auga
fyrir sig. Vestan við Köldukvísl á melunum vestan þjóðvegarins gegnt fyrrnefndu
hrúðri er gamalt kalkhrúður sem virðist vera uppþornað og að hluta hulið möl.
Þvergil. Þvergil greinist upp u.þ.b. 750 m ofan við veginn um Kerlingarskarð.
Í þeirri kvísl sem liggur í austur eru fjölmargar ölkeldur á um 100 m kafla sem
koma upp með ANA–VSVlægu misgengi. Rennsli er fremur lítið. Áberandi gul
og rauðleitar útfellingar eru við augun. Hitastig hefur aldrei verið mælt.
Dufgusdalur (eða Dökkólfsdalur). Hvítar útfellingar finnast á steinum í eystri
árbakka Straumfjarðarár neðan undir Urðarmúlahorni. Rennsli er varla merkjan
legt.
Staðarsveit
Arnartunga. Í sóknarlýsingu Staðarstaðasóknar árið 1840 (Sýslu og sóknarlýs
ingar Hins íslenska bókmenntafélags; í Snæfellsnes III) er sagt að ölkelda sé í
Arnartunguflóa. Að sögn Unu Jóhannesdóttur í Gaul, sem bjó í Arnartungu, þá
var ölkelda í skurði skammt austan við hesthúsið sem er í miðjum nátthaganum
austan undir Kastalanum sem bæjarhúsin stóðu á.
Bergsholt. Volgra með ölkeldubragði kemur upp í skurði sunnanundir hól sem
er rétt suðaustan við bæjarhólinn. Í maí 1977 mældist mestur hiti um 22°C, en
hefur áður mælst mestur um 24,5°C, þá nefnd Glaumbæjarölkelda. Afæta er í
skurðinum á um 25 m. kafla og töluvert er af kalkútfellingum í honum. Áður fyrr
var volgran upp undir hólnum en hún hljóp fram í skurðinn er hann var grafinn.
Ölkelda. Ölkelda er í túninu neðan við bæinn að Ölkeldu. Þar bólar upp
kolsýra en rennsli ofanjarðar er ekki mikið. Áður fyrr kom hún upp í harðri þúfu
sem var 1½ fet í þvermál og 1 fet á dýpt (Eggert Ólafsson, 1943). Þessi ölkelda
var hlaðin upp fyrir mörgum áratugum síðan og er hún nú nær metri á breidd
og ámóta djúp. Í skurðinum vestan við ölkelduna kemur fram kalkhrúður svipað
því sem er í kringum hana sjálfa. Hitastig var í maí 1977 um 6°C, í júní 7°C og
í nóvember sama ár 1,8°C. Áður hefur hún mælst 10°C í ágúst og 8°C 1935 eða
1936 og rennsli þá 0,6 l/s.