Tímarit Máls og menningar - 01.02.2010, Blaðsíða 20
Þ o r s t e i n n A n t o n s s o n
20 TMM 2010 · 1
Þau hafa líklega talað lágt, því ég hef líklega sofið. Ég sé fyrir mér dauft rafljós
en ágústhúm fyrir utan. Þetta mun hafa verið skömmu eftir að C. kom heim úr
hálfs annars árs siglingu á norskum skipum (Heimild Guðrún frá Hausastöð
um.)
Elíasi var mikið í mun síðasta áratug ævi sinnar að skrifa endurminn
ingabók um bernsku og unglingsár sín í Reykjavík en lítið varð úr
verki. Bókin átti einkum að fjalla um samverutíð hans og ömmu hans
og nágranna, á Hverfisgötu 80 og síðar við Grundarstíg. Stundum getur
hann þess í Njólu að fyrir honum liggi mikið óskrifað efni í framhaldi
frásagnabrota sem hann skrifar þar skýrri, smágerðri rithendi en tekur
fram að kringumstæðurnar leyfi ekki að meira sé úr því gert að sinni:
Fékk í kvöld hugmynd að upphafskafla endurminningabókar, sem er nokkurn
veginn þannig:
Ég var víst á þriðja árinu, og ég stóð ásamt Mömmu við leiði móður minnar.
Þetta var ekki í fyrsta sinn, og Mamma var búin að segja mér að móðir mín væri
grafin þarna í moldina, og svæfi þar að eilífu. Má vera að ég væri búinn að gleyma
þessu, ef ég hefði ekki heyrt, að álengdar var verið að syngja, og svo var klukkum
líka hringt. Allt var mjög kyrrt og bjart, og söngur og klukkuspil barst langan veg í
lognkyrrðinni. Mamma sagði, að nú væri verið að grafa einhvern látinn, einhvern
sem væri kominn til Guðs eins og móðir mín.
Faðir Elíasar, Cæsar Mar, stílaði sjóferðasögur sínar, þrjár útgefnar, af
fræðimannslegu látleysi sem einkenndi báða höfundana. En líklega má
kalla að fræðimannseinkennið hafi farið út í öfgar hjá syninum. Annars
munu þeir ekki hafa verið líkir menn að skaplyndi. Föður sinn heyrði ég
hann aldrei minnast á þau tíu ár sem ég þekkti Elías, þrátt fyrir löng
samtöl okkar sem fyrir kom að entust fram undir morgun og nokkur
eru til hljóðrituð. Í Njólu sinni segir Elías á einum stað: „Pabbi var afar
dularfullur maður í mínum augum, en mér fannst hann alltaf vera sem
fjarlægur kunningi; ekki sem faðir. Þó áritaði hann bækurnar sínar til
mín sem sonar síns og var alltaf góður við mig í orðum.“
Annars staðar segir Elías í náttbókinni:
Mikið var faðir minn dulur maður. Ég sé mikið eftir því, að hafa ekki reynt að
kynnast honum nánar á meðan hann var nokkurn veginn heill heilsu. Ég hefði
viljað spyrja hann um kynni hans og móður minnar; hvernig þau hefðu kynnzt,
hversu lengi þau hefðu þekkzt og hvernig kona hún hefði verið. Ég hefði þá
þurft að geta talað við hann eitthvert kvöld þegar Jóhanna stjúpa mín var úti
að vinna.
Einu sinni þegar ég var lítill, líklega á 10. ári, skrifaði ég honum bréf og sendi