Tímarit Máls og menningar - 01.02.2010, Blaðsíða 12
I n g i b j ö r g S ó l r ú n G í s l a d ó t t i r
12 TMM 2010 · 1
mikilla muna enda jókst viðskiptahallinn ár frá ári og var kominn í 30%
af vergri landsframleiðslu árið 2006. Til samanburðar má geta þess að
áður hafði hann farið hæst í 12,5% árið 1947, þegar þjóðina vanhagaði
um alla hluti í stríðslok og nýsköpunartogararnir voru fluttir inn. Hann
fór síðan í 8,8% 1968 við hrun síldarstofnsins. Í bæði þessi skipti var
þjóðin að takast á við utanaðkomandi áföll, annars vegar vegna stríðs
reksturs og hins vegar vegna mikils hruns í útflutningstekjum. En á
árunum 2000–2007 var áfallið framleitt innanlands og viðskiptahallinn
fjármagnaður með lánum rétt eins og aldrei kæmi að skuldadögum.
Fyrir kosningarnar 2007 var nokkur umræða um erfiða stöðu efna
hagsmála og Samfylkingin gaf m.a. út ritið „Jafnvægi og framfarir“ sem
ritstýrt var af Jóni Sigurðssyni. Þar kemur fram sú skoðun að íslenska
hagkerfið sé í miklu ójafnvægi og bent á margvísleg hættumerki. Þar
segir m.a.: „Hættan er sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum
fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi,
gengisfalli og verðbólgugusu.“16 Sú umræða skilaði hins vegar ekki
miklu og í bloggi sínu í apríl 2007 skrifar Egill Helgason, sem er að jafn
aði ágætur barómeter á það hvaðan vindur blæs: „Það er svosem ærin
ástæða til að tala um efnahagsmálin … en það er eins og stjórnarand
staðan viti að það skilar henni litlu að tala um þetta – henni er ef eitt
hvað er síður treyst fyrir hagstjórninni en ríkisstjórnarflokkunum.“17
Þegar hann bloggar um bankakerfið á árunum 2007 og 2008 er það um
vaxtamuninn, þjónustugjöldin, verðtrygginguna, gróða bankanna,
ofur laun og óhóf. Ekkert um skuldsetningu, stærð bankakerfisins, sam
þjöppun, innlánastarfsemi í útlöndum eða áhættuna sem öllu þessu
fylgdi fyrir íslenska þjóðarbúið. Áhyggjur af vandræðum bankanna
koma ekki fram hjá honum frekar en öðrum fyrr en í lok maí 2008 þegar
ríkisstjórnin ákvað að leggja til við Alþingi lántöku upp á allt að 500
milljarða króna til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans.18 En þá var
líka stutt í endalokin.
Sannleikurinn er sá að stærð fjármálakerfisins, skuldsetning þess og
þjóðarbúsins virtist ekki valda neinum verulegum áhyggjum fyrr en í
óefni var komið. Fjármálageirinn var orðinn stærri hluti af landsfram
leiðslu en sjávarútvegur, hagnaður hans var gríðarlega mikill sem og
þeir skattar sem hann greiddi í ríkissjóð, bæði beinir og óbeinir. Fjár
málastofnanir buðu þúsundum ungra Íslendinga upp á vellaunuð störf
heima og erlendis og stjórnendur þeirra virtust eins og fiskar í vatni í
hinu hnattvædda hagkerfi heimsins. Þó að ofurlaunin og óhófið væri
mörgum þyrnir í augum þá töldu þó flestir að nýir menn og nýir pen