Tímarit Máls og menningar - 01.02.2010, Blaðsíða 21
S ú l e y n d a á s t
TMM 2010 · 1 21
í pósti. Hann bjó þá á Laugarvegi 174 og hafði verzlun í sama húsi. Þetta var
skammabréf, þar sem ég ásakaði hann um að hafa svikið móður mína og átt
beinlínis þátt í dauða hennar, þegar hún fékk bráðaberklana. – Amma mín sagði
mér, að hann hefði aldrei svarað bréfum móður minnar. En kannski fékk hann
aldrei þessi bréf. Hann fór í siglingar á norsku skipi skömmu eftir að ég kom
undir. Og hann kom ekki til landsins fyrr en ég var orðinn ársgamall og móðir
mín nýdáin og grafin […] Skömmu eftir að ég skrifaði honum bréfið forðum
dreif ég mig í það að fara inneftir í verzlunina til hans. Hann tók mér afar vel,
en var þó mjög alvarlegur og eiginlega vandræðalegur. Sat innan við búðardisk
inn, horfði niður í gaupnir sér og sagði eitthvað á þá leið, að máski væri það sér
að kenna að móðir mín dó. Ég gat lítið sagt, og líklega hef ég ekki staðið þarna
við lengur en í kortér. En hann leysti mig út með ríkulegri sælgætisgjöf í stórum
bréfpoka. Þegar ég kom með þetta heim, þótti ömmu minni vænt um þetta, enda
hafði bæði bréfið og búðarferðin verið með hennar samþykki. Ég fór oftar inneftir
í búðina til pabba, og hann tók alltaf vel á móti mér […] Aldrei hef ég efast um
að ég sé rétt feðraður og pabbi gekkst strax við mér, er hann kom til landsins úr
sinni löngu utanlandsferð.
Elías var alla sína tíð tengdur Franska spítalanum við Lindargötu með
undarlegum og líklega órjúfanlegum hætti. Hann ritar í Njólu:
Áhrif frá upphafi Oliver Twists, er ég sá í sjónvarpinu í fyrrakvöld: Mér verður
hugsað til móður minnar þar sem hún lá dauðvona í vesturstofu Franska spít
alans og vissi, að hún myndi aldrei sjá litla drenginn sinn framar. Gömul og hölt
móðir hennar hét henni því að sjá um barnið eins lengi og henni entust kraftar
til. Hvar í þessari stóru stofu móðir mín lá veit ég ekki, en ekki hefur kolaofninn
verið kyntur, því þetta var um hásumar og sól skinið úti. Skyldi stúlkan ekki
hafa legið í móki, að mestu, e.t.v. lítið skynjað mun dags og nætur – og e.t.v. sætt
sig við það, hvernig komið var. Dauðinn kvað henni vöggulag. Dauðinn sagði
lágt, hvíslaði: Komdu með mér. Ég mun endanlega leysa þig frá öllum sorgum
þessa jarðlífs. Ég mun ekki svíkja þig […]
Mörgum árum síðar, þá 15 ára, flutti ég í þessari sömu stofu, blaðalaust, ræðu
á stofnfundi félags ungra skálda og rithöfunda, og hefur Jón Óskar hrósað þeirri
tölu í endurminningum sínum. Aldrei var ég í bekk í þessari stofu, á meðan ég
var í Ingimarsskóla, en stundum sótti ég skólaböll og skemmtanir sem þar voru
haldnar og las þá upp frumsamið efni. Svo var Jóhanna Þorgils þarna í bekk […]
Varla hefur móður mína grunað, að spítali þessi ætti eftir að verða skóli – og
sonur hennar tala þarna sem upprennandi rithöfundur. En mér þykir vænt um að
hús þetta skyldi hafa fengið að standa, en ekki orðið skipulaginu að bráð.
Elías var skotinn í tilgreindri skólasystur sinni, Jóhönnu Þorgils, á
unglingsárunum, hann skrifaði stúlkunni bréf á þeim tíma og orti um
hana ljóð. En framkoma hans þá og endranær reyndist stúlkunni og
vinkonum hennar undarleg og fráhrindandi eftir því sem hann skrifar