Tímarit Máls og menningar - 01.02.2010, Blaðsíða 125
Á d r e p u r
TMM 2010 · 1 125
að danskir menn, sem höfðu brennandi áhuga á hinum fornu fræðum og efni
og aðstöðu til að láta prenta bækur, leituðu samstarfs við Íslendinga til að heyja
fróðleik í handritum þeirra. Þeim var vorkunn þótt kunnáttan í fornri íslensku
væri takmörkuð þar sem hjálpartæki til náms voru engin eða mjög ófullkomin
og textar óútgefnir í handritum.
Ástæða er til að hafa í huga að allir þeir þrír Danir sem hér eru nefndir voru
af voldugum og auðugum embættismanna eða aðalsættum og höfðu áhrif á
æðstu stöðum, en það skipti ekki litlu máli í þjóðfélagi þess tíma.
Vatnaskil urðu í þessari fræðastarfsemi, þegar Árni Magnússon og Mette
kona hans undirrituðu erfðaskrá sína 6. janúar 1730, degi fyrir andlát Árna. Í
skránni er vikið að mörgum hlutum, en það mikilvægasta er að þau arfleiða
Hafnarháskóla að öllum eigum sínum og lýsa vilja sínum um hvernig með þær
skuli farið. Um fjármuni segir að þeim skuli ráðstafað til að ráða einn eða tvo
stúdenta frá Íslandi til starfa í samræmi við óskir Árna um hvernig starf þeirra
megi verða föðurlandinu og almenningi að gagni. Hér lætur arfleiðandinn í
ljós eindreginn vilja um ákveðna nýtingu arfsins, og nýting fjármunanna er að
sjálfsögðu tengd handritasafninu. Það var þessi vilji arfleiðandans og túlkun á
honum miðað við breyttar aðstæður sem var undirstaða þess að danska þingið
gat löngu síðar ákveðið að afhenda Íslendingum hluta handritasafnsins.
Á erfðaskránni byggist stofnskrá sem loks var gerð og staðfest af konungi
árið 1760. Þar er tekið fram að þessi arfur skuli
„til ævig Tiid være bestemmet og henlagt til at oplyse, forbedre og til Trykken at
befordre lade alt, hvad der angaaer Nordiske, nemlig Danmarks, Norges og under-
liggende Landes Historie, Sprog og Antiquitæter …“
Að þessu verki er enn unnið í nafni Árna Magnússonar bæði í Danmörku og á
Íslandi í stofnunum sem bera nafn hans.
Á átjándu öld voru íslenskir lærdómsmenn enn mjög háðir samvinnu við
danska embættis og efnamenn, þrátt fyrir styrkþegastöður við Árnasafn. Þá
hófust undir forsjá Árnanefndar útgáfur íslenskra fornrita með latneskum
þýðingum, en í nefndinni sátu fulltrúar Hafnarháskóla, eins og stofnskráin
mælir fyrir um, danskir prófessorar og embættismenn, oft einn Íslendingur
eða tveir ef þeirra var völ.
Ástæða er til að geta hér um Peter Frederik Suhm (1728–98) og starfsemi
hans. Suhm var af stórauðugur maður af aðalsætttum. Hann hafði brennandi
áhuga á bóklegri iðju og átti feikimikið bókasafn. Suhm hóf að rita risavaxna
Danmerkursögu, en ætlaði sér um of og lauk því aldrei. Inngangurinn er 10
bindi, en það sem út kom af verkinu eru um 10 þúsund blaðsíður, og munu fáir
nú ráðast í að lesa þau ósköp. Suhm réð einatt íslenska stúdenta eða lærdóms
menn í vinnu til undirbúnings nýjum útgáfum fornrita og þýðingum á latínu
og varði til þess miklu fé, þótt árangurinn yrði ekki eins mikill og að var stefnt,
og var ekki alltaf við hann að sakast.
Það er fyrst með Rasmus Kristian Rask (1787–1832) að fram kemur danskur
fræðimaður sem stendur hinum íslensku fyllilega jafnfætis í skilningi á forn