Tímarit Máls og menningar - 01.02.2010, Blaðsíða 26
Þ o r s t e i n n A n t o n s s o n
26 TMM 2010 · 1
Við settumst á skuggsælan stað,
tveir menn – einn maður ? Nei, ekki enn.
Og ég greip um hönd þína, öxl þína
og þrýsti á varir þínar fyrsta kossi okkar.
Þú spurðir lágt, út í myrkrið:
Hvað erum við að gera, Elías Mar?
Saga ástarsambandsins er rakin með ljóðaflokknum um nokkurra ára
skeið. Sá yngri reynist kaldlyndari, heilli í afstöðu sinni til kynlífsins,
enda sækist hann aðeins eftir kynlífssamböndum við karlmenn eftir lýs
ingunni. Og hann hefur átt enn erfiðara með fóta sig í íslenskum veru
leika, þunglyndi og aðrar geðraskanir sótt á hann uns hann gafst upp á
námi, viss um að hann ætti ekki framtíð fyrir sér á Íslandi, og leitar á
suðrænar slóðir eftir gagngerum umskiptum. Hann fer í háskólanám
fjarri heimalandinu, við ólíkar aðstæður, og er fljótlega kominn í nýtt
ástarsamband. Eftir situr ljóðskáldið í landinu kalda og hefur sumpart
tekið að sér milligöngu um hin veraldlegri tengsl hins fjarlæga ástvinar
við gamla landið. Söknuðurinn er mikill og fimm árum eftir umskiptin
yrkir hann:
Þegar blekkingin er horfin
er sem dagarnir séu, hver um sig,
aumkunarverð og sundurslitin brot
og ekki í órofa heild við tímann; nei,
sem sundurnístir, einmana þættir
úr einhverju sem áður hefur verið tengiliður
unaðsfullra atvika;
orðnir að tilgangslausum þráðarspottum
utanveltu við lögmál upphafs og endis
og í mótstöðu við sjálfa sig.
Og næturnar –. Já, einnig þær –
hinar dauðakyrru andvana nætur,
þar sem lífið er myrt …
Enn heldur Minning áfram að geyma
á miskunnarlausum spegilfleti sínum
tilgangsleysi og auðn
þessara daga
og nátta; þó að ekkert gerist – ekkert sé til að muna.
Geymdin er höfuðskepna í mínu lífi …