Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 8
L a r s L ö n n r o t h
8 TMM 2016 · 2
orði um bréfaskipti. Síðan leið nokkur tími fullur af óró og blekkingum þar
til dag einn að ég sagði T[eodor] hreinskilnislega frá sambandinu […] Ég fór
til S[igurðar] í Kaupmannahöfn […] Ég var blinduð, vildi bara komast burt
frá hinum óhamingjusama Teodor og heimilinu, hélt að S[igurður] og lífið
með honum myndi bæta mér upp allt hið gamla og gera mig mjög hamingju-
sama.“ (Dagbók 9/3 1915).
Af bréfum Sigurðar frá því í september 1913 má ráða að hann hafi fengið
bréf frá Teodor sem þvingaði hann til að lofa því að hitta Nönnu aldrei aftur
þar sem hún geti ekki yfirgefið börnin og fátækur doktorsnemi í Kaup-
mannahöfn geti auk þess ekki framfleytt henni. Sigurður er miður sín en
telur sig í fyrstu bundinn af loforði sínu. Hann gerir ekki ráð fyrir að hitta
Nönnu aftur (25–6/9). En bréfaskriftirnar hefjast næstum strax aftur og það
verður fljótlega ljóst að hvorki hann né Nanna eru tilbúin til að halda loforð
sitt við Teodor.
Einmitt um þetta leyti var að slakna á hinu stranga hjónabandssiðferði,
jafnvel meðal borgarastéttarinnar en þó einkum innan bókmenntaheimsins
og meðal menntakvenna eins og Nönnu. Í Svíþjóð predikaði Ellen Key boð-
skap sinn um frjálsar ástir sem hún vildi leyfa ef þær byggðust á sönnum til-
finningum og hugsjónum. Skáldsaga Hjalmars Söderbergs Den alvarsamma
leken, sem lýsir sambandi Lydiu Stille og Arvid Stjärnblom utan hjónabands,
hafði komið út árið 1912 og vakið bæði hrifningu og heiftarlegar deilur.
Söderberg hafði líka þýtt skáldsögu sem slegið hafði í gegn um alla Evrópu,
Le lys rouge (Rauða liljan) eftir Anatole France sem lýsir stormasömum
ástum ungs listamanns og giftrar aðalskonu. Sigurður dáði þessa sögu, sem
hann las á frönsku í Kaupmannahöfn, og hann vildi að Nanna læsi hana líka
þar sem honum þótti hún minna á samband þeirra sjálfra. Þetta kemur fram
í fyrsta ástarbréfinu eftir dvölina í Alsbäck (1/8 1913). Nanna vildi fyrir sitt
leyti að hann læsi ljóð Eriks Axels Karlfeldt, sem einnig lofsyngur ástina.
Sigurður varð sér þegar í stað úti um ljóðabækur skáldsins og bað hana að
segja sér hvaða ljóð væru henni kærust (6/8 1913). Af síðari bréfum má ráða
að Nanna hvatti hann líka til að lesa önnur sænsk skáld, þar á meðal Fröding
og Ola Hansson.
Fyrstu mánuðina sem þau skrifast á eru bréf Sigurðar eins og ein samfelld,
sterk tilfinningasprengja. Hann saknar hennar óskaplega, hefur aldrei elskað
neina eins og hann elskar hana, hún hefur gefið lífi hans nýjan og ríkari til-
gang. Ást hans er eins og sólarupprás eftir langa nótt. Hann vill segja henni
frá öllu sem hann hendir og hún á að segja honum frá öllu sem kemur fyrir
hana.
Um sjálfan sig skrifar hann að hann skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti er ytra
hlutverk hans: strangur, formfastur og vel menntaður ungur fræðimaður.
Þetta hlutverk gefur honum kjölfestu sem kemur í veg fyrir að hann kafsigli.
Annar hluti persónuleika hans er uppfullur af stemmningum og ævintýrum,
stjórnlaus heimur sem er sjálfum sér ósamkvæmur og fullur af óvæntum