Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 98
J ó n K a r l H e l g a s o n
98 TMM 2016 · 2
eitthvert samband væri á milli þeirra feðga. Í raun og veru var Elías orðinn
einstæðingur átján ára gamall og var í vissum skilningi að missa móður í
annað skipti á ævinni.10
Í þeim tveimur bókum með skrifum Elíasar sem Þorsteinn Antonsson
annaðist útgáfu á, Elíasarbók (2011) og Elíasarmálum (2014), má finna
nokkra texta frá þessum tíma. Þar á meðal er sögubrotið „Miðnætursól“ frá
1939 sem lýsir því þegar sögumaður hittir ókunnan, fullágengan karlmann
á Melunum í Reykjavík:
Loksins þegar við vorum komnir suður að loftskeytastöðinni, þá sagði hann:
„Ég skal sýna yður fjársjóðinn minn.“
Ég hafði verið að hugsa um eitthvað annað og engan gaum gefið orðum hans, sem
þó höfðu verið töluð af alvöru og með tilhlýðilegum og ákveðnum rómi.
Og af þessu varð aftur þögn.11
Sögumaður dregur að lokum þá ályktun að maðurinn sé ekki bara drukkinn
heldur líka geðveikur. Ekki er ljóst hvernig samskiptum þeirra lýkur. Frá
sama ári eru kvæðin „Reykjavíkuróður“, „Málaðar meyjar“ og „Drengurinn
í Öskjuhlíð“. Í því síðastnefnda segir af ungum sveini sem (líkt og litla
stúlkan með eldspýturnar) situr „loppinn á höndum og einn“ uppi í Öskju-
hlíð, „og hann dottar; hann er leiður á öllum, öllum, öllum“. Það er ekki fyrr
en hann sofnar og fer að dreyma drottin að „honum finnst að sál hans sé sæl
og / svefninn veitir frið og hvíld líkamanum veika“.12
Í Elíasarbók og Elíasarmálum eru nokkrir textar frá árunum 1941 til 1942,
þeirra á meðal kvæðin „Við þykjumst lifa …“, „Samtal við silungsveiðar“
og „Kvæði til skálds“, smásagan „Erfðaskrá Jónatans frá Stíflu“ og uppkast
að skáldsögunni Börnin á mölinni. „Kvæði til skálds“ er ort út frá teiknaðri
mynd af skáldinu Steini Steinarr sem Elías virðist í senn dást að og hafa efa-
semdir um: „En til hvers nú ertu að treina þitt líf / fyrst hin tómláta veröld
er þögul og kvalin,“ spyr hann skáldið á myndinni og bætir við: „Hví styttir
þú ekki þitt stríð og kíf / og steypir þér í dauðans valinn?“ Lokaerindið er
svohljóðandi:
Ef vínnautn þín yrði til varnaðar þeim
er á veginum glepjast, er hlutverk þitt mikið.
Ef söngljóð þín ná því, að sýna’ oss í heim
sorgar, – og táls þeirra’ er hafa þig svikið,
þá hefur þú sigri á hólminum náð,
þá hefur þú frækorni í jarðveginn sáð
sem enginn mun þaðan aftur fá vikið.13
Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að Elías var enn virkur innan góð-
templarahreyfingarinnar og raunar kosinn varaforseti Sambands bindindis-
félaga í árslok 1943.14 Skömmu síðar, 1. febrúar 1944, flutti hann ræðu um
bindindismál yfir nemendum Gagnfræðaskólans þar sem hann gagnrýndi