Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 66
66 TMM 2016 · 2
Daisy Neijmann
„Á landamærahafinu“
Hugleiðingar um sögur Svövu Jakobsdóttur
Svava var meðal fyrstu íslenskra nútímahöfunda sem ég kynntist, fyrir
langa löngu, á háskólaárum mínum erlendis. Þá hafði ég verið með Ísland
á heilanum í þónokkur ár, og var farin að læra íslensku, en var ekki orðin
nógu góð í henni til að geta lesið bókmenntaverk. Ég varð því að reiða mig á
þýðingar, og nokkrar sögur Svövu höfðu verið þýddar yfir á ensku. Og það
verður að segja eins og er: þær ollu mér vonbrigðum í fyrstu. Ég var ennþá
með mjög glæsta og rómantíska mynd af Íslandi í huganum, og myndin sem
birtist í þessum sögum hefði ekki getað verið frábrugðnari henni. En – ég
gleymdi þessum sögum aldrei. Þær smeygðu sér inn í vitund mína.
Þetta er meðal þess sem mér finnst vera svo merkilegt við verk Svövu. Þau
hafa veruleg áhrif á mann, vekja spurningar, hugleiðingar – stundum óþægi-
legar – neyða mann til að horfast í augu við ýmislegt, ásækja mann jafnvel.
Og þetta er einmitt það sem mér finnst vera hlutverk listamanns.
Sögurnar sem ég las fyrst voru hinar klassísku eldri sögur hennar: „Eld-
hús eftir máli“ og „Saga handa börnum“. Hér birtist ekki hin stórkostlega og
óspillta íslenska náttúra, þar sem búa sérvitrir bændur sem raula rímur og
lesa fornsögurnar. Í „Eldhúsi eftir máli“ er að vísu landnámsmaður í aðal-
hlutverki, og nafn hans, Ingólfur, vísar auðvitað strax til þess. En landnám
hans er nútímalandnám, og felst í því að hanna og byggja hið fullkomna eld-
hús, og ná með því frægð og frama eins og landnámsmennirnir til forna. Það
sem mér finnst algjör snilld við þessa sögu er hvernig hún er sögð algjörlega
út frá sjónarhorni karlsins, Ingólfs, og afhjúpar þannig stöðu kvenna í karla-
heimi Íslandssögunnar, með sínum menningar- og þjóðernishugmyndum.
Eldhúsið hefur jú lengi verið kennt við konur og kvennahlutverkið, hvort
sem við lítum á það á jákvæðan eða neikvæðan hátt, lítum á eldhúsið sem
hjarta heimilis og valdasvið kvenna – eða sem fangelsi kvenna. En hér, í
þessu nútímalandnámi Ingólfs, er þetta rými, þetta svið, eldhúsið, tekið frá
konunni af Ingólfi manninum hennar, og því breytt samkvæmt hugmyndum
hans. Að lokum er eldhúsið því orðið hans afurð, heimur sem hann hefur
skapað, hans veldi, sem konan hans þarf að laga sig að. Þegar kemur í ljós að
hún á erfitt með það, skilur hann að hann verður að finna sér nýja konu. Í
heimi landnámsmannsins er ekki pláss fyrir konuna, ekki einu sinni í eld-