Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Qupperneq 29
A ð l í m a v e r ö l d i n a s a m a n
TMM 2016 · 2 29
ég hafi verið frekar prúð, meðfærileg. Sennilega hef ég verið vanvirk svo ég
hef stundum þurft að benda á með látum að ég væri til.
Hvort fannst þér skemmtilegra að vera barn eða unglingur?
Þetta hefur bara skánað með hverju árinu. Mér þótti oft erfitt að vera
barn, þetta fullkomna valdaleysi átti ekki við mig. Allt hefur bara skánað
með hverju árinu.
Varstu trúuð? Ertu trúuð?
Já, ég er trúuð, en mér nægir sköpunarsaga vísindanna, hún er nógu
mystísk fyrir mig. Allt er náttúrulegt en alveg þrælmagnað. Við vitum að
allt sem var og allt sem er og allt sem verður blundaði inni í þessu glóandi
fræi, í þessari örðu sem hafði engan radíus og þar sprakk út þetta ævintýri.
En auðvitað getur þessi sköpunarsaga ekki frekar en aðrar sköpunarsögur
svarað því hvaða saga var á bakvið þessa örðu eða spurningunni sem öll börn
spyrja: Hvaðan kem ég? Um daginn spurði barnabarn mitt, eftir að einhver
hafði sagt henni að Guð hefði búið allt til: En amma hver bjó þá til Guð?
Ertu félagsvera, einfari?
Ég hef nú verið frekar á einfaranótunum – og samt ekki – ég á góða vini
en ég er enginn félagssprauta. Þegar ég var lítil fannst mér voðalega gott að
labba ein og tala við sjálfa mig, ég lengdi meðvitað heimleiðina úr skólanum
til að njóta einverunnar. En ætli ég sé ekki bara meðaleinfari og meðalfélags-
vera – allt meðal – en þú?
Líka meðal.
Þegar ég var lítil og hafði eytt deginum með fjölskyldunni eða vinum
fannst mér alltaf að ég ætti eftir að vera ein með sjálfri mér.
Varstu pabbastelpa, mömmustelpa? Viltu segja mér eitthvað meira um fjöl-
skylduna þína?
Ég var háð þeim báðum og þau sinntu sitthvoru hlutverkinu í lífi mínu.
Mamma var nær okkur, hún var heima. Pabbi vann úti, í stóra heiminum.
Pabbi hafði afskaplega gott geð, honum fylgdi ró og festa, ekki strangleiki,
hann var svo umburðarlyndur að það hálfa gat verið nóg – hann skartaði
umburðarlyndri ró. Eftir að hann varð hjartveikur vildi Katrín föðursystir
mín að ég færi með honum í ferðalög sem fylgdu starfi hans og ég ferðaðist
mikið með honum um landið. Hlutverk mitt var að setja tóbak í pípuna og
kveikja í. Hann kenndi mér nöfnin á hverri sprænu, þekkti landið eins og
eigin lófa, sparkaði í þúfur og sagði mér nöfnin á jurtunum.
Mamma var suðrænni, svört á brún og brá – ætli ég hafi ekki talað meira
við mömmu um allt ómögulegt. Hún var gullsmiður, hafði listamannssál