Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 35
A ð l í m a v e r ö l d i n a s a m a n
TMM 2016 · 2 35
Hvað meturðu minnst í fari manneskju?
Ég á mjög erfitt með væmni – þetta er náttúrlega alltaf spurning um
smekk – en er ekki einhver lygi falin í væmninni?
Hverjir eru kostir þínir?
Ég reyni að vera góð manneskja – viðleitnin er kostur.
Hvað metur þú minnst í eigin fari?
Ég á það til að víkja mér undan veseni, ef mér er misboðið læt ég mig
hverfa í stað þess að segja hug minn, er of sein til að segja það sem ég vildi
sagt hafa, svo ég bara fer. Hvað á maður að kalla svona?
Mm, veit ekki.
Þetta er ekki beinlínis átakafælni. Frekar leti og kannski hroki, æ þessar
erfðasyndir. Ég er lengi að hugsa minn gang, reiðist ekki – ef við undan-
skiljum köstin sem ég tók sem barn – held öllu inni en íhuga tímunum
saman hvað ég hefði átt að segja á hinum hárrétta tímapunkti. Kannastu
við þetta?
Mm, veit ekki, jú, mjög vel, en hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Þú ert búin að spyrja mig að þessu.
Nei, þá spurði ég hvað gerir þig glaða.
Mér finnst skemmtilegast að einbeita mér – já, hvort sem það er að sam-
skiptum eða verkefni. Svo finnst mér gaman að ganga, setja aðra löppina
fram fyrir hina, lesa góða bók, horfa á gott leikrit eða bíó, dansa. Mér finnst
ægilega gaman að rækta grænmeti, gaman að prjóna sokk. Ég hef sem betur
fer gaman að lífinu, að hvunndeginum og næstum öllu þar á milli.
Hver er hugmynd þín um (fullkomna) hamingju?
Það er einhvers konar samhengi.
Hver er uppáhaldsliturinn þinn og -blóm?
Allir litir eru háðir samhenginu. Mamma mín og vinur hennar Sigvaldi
Thordarson arkitekt pældu mikið í hvaða litir þyldu íslenska birtu sem er
köld og blá. Skilyrðin fyrir liti eru öðruvísi hér en til dæmis í Mexíkó og
margir litir missa máttinn í norðlægu ljósi. Sigvaldi er núna frægur fyrir
litina sem hann valdi: svarblátt, appelsínugult, dumbrautt og hvítt, litir sem
verða mjög ferskir og djúsí í íslenskri birtu.
Mig dreymdi um bleikt þegar ég var lítil, eða blegt eins og ég sagði.
Kannski var það einhver kvenleiksdraumur, maður tekur eftir þessu blæti
hjá litlum stelpum, kannski var það afþví að það var ekkert bleikt í kringum
mig. Mig dreymdi dagdrauma um blegt pils.