Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 71
„ Á l a n d a m æ r a h a f i n u “
TMM 2016 · 2 71
(600). Ótrúlega falleg mynd sem Svava dregur upp hér, og táknræn eins og
alltaf, því þegar lesandinn fer að kynnast Önnu verður ljóst að hluti af henni,
þeirri Önnu sem ólst upp á Íslandi, er einmitt steinrunninn eins og landið,
og verkefni hennar í þessari Íslandsferð er uppgjör við sjálfa sig og fortíðina,
sem liggur í gegnum mýkt ástarinnar og fyrirgefningarinnar.
Sérlega falleg og átakanleg saga, „Fjörusteinn“, er í sömu bók. Hér fær
lesandinn að sjá í hug aldraðs manns á meðan börnin hans undirbúa móður
sína undir flutning á hjúkrunarheimili, en hún er orðin heilsulaus og hann
of roskinn til að geta séð um hana lengur. En það er honum þungbært að
missa Sigríði konuna sína af heimilinu. Á meðan hugrenningar og blendnar
tilfinningar sækja að honum teygja hendur hans sig næstum ósjálfrátt eftir
fjörusteini í gluggakistunni. Steinninn virðist honum allt í einu lífsföru-
nautur:
Þetta var venjulegur fjörusteinn sem hann hefði ekki litið við þegar hann var yngri
en uppgötvaði nú að með aldrinum lærðist manni að greina mál steina, gat hlýtt á
ævisögu þeirra og sagt þeim sína. […] mótaður af misjöfnum öldum og sverfandi
brimi uns hann var orðinn ávalur og þjáll og misfellulaus, hann hvíldi þægilega
í lófa án þess að þyngja eða særa, þéttur, traustur. Fullskapaður var þessi steinn,
formið endanlegt og yrði ekki breytt úr þessu. (632–33).
Steinninn hafði minnt á sig í fjörunni þegar hann kynntist Sigríði:
Hann rétti Sigríði steininn varlega líkt og steinninn væri brothætt egg, óbætanlegt
ef það brotnaði og hún hafði tekið við þessum dýrgrip þegjandi með sama hugarfari
og hann. Það vissi hann […] vegna þess að hvort um sig var löngu farið að eigna
hinu eigin hugsanir. (633)
Öfugt við vegginn í „Veizlu undir grjótvegg“ sem aðskilur hjónin er fjöru-
steinninn í þessari sögu sameiningartákn þeirra hjóna, lífsegg þeirra sem
geymir minningar um sameiginlegt líf. En nú þarf að ákveða hvar steinninn
eigi að vera. Og þá fyrst gerir gamli maðurinn sér grein fyrir því hvað það
þýðir að missa einhvern sér nákominn. Hann krýpur við rúm hennar, „lagði
steininn ofan á sængina og hélt þar um hann báðum höndum eins og hann
væri að færa fórn sem honum væri þó um megn að sleppa“ (635). Því „steini
gæti blætt út væri honum skipt í tvennt“ (635).
Venjulegur fjörusteinn verður þannig magnað tákn um lífsleið og ást þess-
ara hjóna, ástarsamband þeirra, óbrjótandi, en blæðir út þegar það brotnar
í sundur.
Það sem skilur fólk að er annað mjög áberandi þema í verkum Svövu,
landamæri og stundum líka þau mörk eða landamæri sem gera það að
verkum að sumir verða útskúfaðir úr samfélaginu. Svava þekkti vel til
landamæra sjálf því hún ólst að hluta til upp í Kanada, þar sem faðir hennar
starfaði sem prestur meðal Vestur-Íslendinga, stundaði síðar nám í Banda-
ríkjunum og Bretlandi og starfaði í Svíþjóð. Glöggt er gests augað segir