Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 82
H j a l t i Þ o r l e i f s s o n
82 TMM 2016 · 2
henni til hagsbóta sem máttu engu að síður ekki vera of gagngerar.10 Í
umfjöllun í Danmörku um verk Aakjærs hafa þau verið sett undir hatt átt-
haga bókmennta (eða átthagamenningar) sem stundum er litið á sem þátt
innan bókmenntastefnu lífhyggjunnar (vítalismans). Norræn átthagaskáld
á fyrri hluta aldarinnar beindu sjónum sínum, líkt og Aakjær, að rótum
nútímamannsins í sveitinni, tengingu hans við samþætta heild umhverfis
og mannfélags auk þess sem þau lögðu áherslu á hið rómantíska og þjóðlega.
Hugmyndafræði þeirra þykir að töluverðu leyti upprunnin frá ákveðnum
armi þýsku þjóðernishreyfingarinnar sem kenndur hefur verið við hugtakið
„völkisch“ (á þ. völkische Bewegung, sem á íslensku mætti ef til vill útleggja
sem „þjóðfylkingu“). Hugmyndirnar voru þó almennar og í hávegum
hafðar af ýmsum flokkum og einstaklingum á meginlandi Evrópu upp úr
aldamótum og á millistríðsárunum. Andúð á tæknihyggju var stór þáttur
norrænnar átthagamenningar, sem og þýskrar hliðstæðu hennar, hún álitin
lífsfjandsamleg og ýta undir niðurbrot á einhvers konar lífrænu samspili
sem gert var ráð fyrir á milli náttúru og menningar. Tæknivæðing í stór-
borgum nútímans þótti brjóta þennan samleik upp í vélræna parta á meðan
lífsheildin, sem tryggð væri í sveitinni, landið, moldin, blóðið og þjóðin sjálf,
varð tákn sköpunar og frjósemi. Samfara fór tignun á lífi bóndans sem þótti
standa nær uppsprettum lífsins og þjóðarinnar í sveitinni og hafa yfir að
ráða eðlisbundinni þekkingu á náttúru ættjarðarinnar.11
Einn frægasti rithöfundur og áhrifamaður átthagakúltúrsins á Norður-
löndum var Norðmaðurinn Knut Hamsun (1859–1952). Í einni þekktustu
bók sinni, Gróður jarðar (1917), upphóf hann erfitt líf dugnaðarforksins Ísaks
á harðbýlisjörð í norðurnorskri sveit og gerði mikið úr einingu persónu og
umhverfis andspænis sundurleysi þéttbýlisins. Óhætt er að líta á þessa bók
sem lykilrit norrænna átthagabókmennta en hugmyndirnar sem Hamsun
boðaði þar féllu vel í kramið hjá íslenskum menntamönnum þessa tíma, svo
sem hjá Sigurði Nordal (1886–1974), og þá ekki síst andúðin í garð borgar-
væðingar.12 Guðmundur G. Hagalín deildi þessu dálæti á Hamsun og má í því
sambandi vísa í þrískipta grein hans í tímaritinu Austurlandi árið 1921 þar
sem hann lofaði dirfsku hins norska skáldjöfurs og sagði að þar væri á ferð
„[…] stærsti, sjálfstæðasti og merkasti andi Norðurlanda […].“13 Sem kunn-
ugt er tók Hamsun afstöðu með nasistum á stríðsárunum en stefna völkisch-
hreyfingarinnar frá því fyrir heimsstyrjöldina fyrri höfðaði til þeirra líkt og
annarra þjóðernissamtaka á hægri væng stjórnmálanna. Hugsjónir af þessu
tagi, andúð á vélvæðingu og löngun til afturhvarfs til sveitanna, voru þó
eins og áður segir útbreiddar á meðal ólíkra aðila í Evrópu sem fæstir áttu
margt sammerkt með nasistum. Engu að síður vöktu fullyrðingar að stríði
loknu um tengsl manna við sjónarmið átthagamenningar stundum hörð
viðbrögð á Norðurlöndunum, ekki síst í Noregi. Erfitt reyndist að horfa með
öllu fram hjá því að viðmið henni náskyld grundvölluðu að verulegu leyti
svonefnda „Blut und Boden“-hugmyndafræði (blóð og jörð) sem reynt hafði