Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Síða 24
24 TMM 2016 · 2
Kristín Ómarsdóttir
Að líma veröldina saman
Viðtal við Halldóru Kristínu Thoroddsen
Þó hún setji sig í stellingar þjóðlegs annálsritara, höfundategundar sem á
heiðurssæti í íslenskri menningu, og taki stíl hans til fyrirmyndar í smá-
sagnasafninu Aukaverkanir, fylgir sögum Halldóru Kristínar Thoroddsen
landamæraleysi, sögurnar eru ekki sér-íslenskar, þær eru lausar við taum
átthaganna, jarðvegurinn er heimsmoldin, sjónarhornið notar hún til gagn-
rýnins leiks. Knappar sögur í minningabókinni 90 sýni úr minni mínu tindra
af skemmtun og frjálsum lífstíl, í lengri sögum verður skemmtunin óræðari,
merkingin slungin, grunsemdarfull, ástríðuheit. Halldóra tollerar íþróttina
kúffull af kímnigáfu og glöggri sýn á tímana. Fyrsta skáldsaga hennar Tvöfalt
gler kom út vorið 2015 og hlaut Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta ári
síðar. Gömul kona verður ástfangin, býr í miðbænum, segir söguna á meðan
hún horfir á lífið gegnum þykkt gler. Einhvern veginn finnst manni sagan
stinga samfélagið á hol – yfirvegað – kalt, einbeitt, án kapps og hefndar.
Rætur ljóða Halldóru, sem hefur sent frá sér þrjár ljóðabækur, stinga sér
djúpt ofan í ljóðlistararf veraldarinnar. Húmor yddar beitt blýantinn, blýið
er mjúkt. Í greininni „Lífinu sniðin þau ósköp,“1 skrifar Bergljót Soffía Krist-
jánsdóttir:
„Halldóra K. Thoroddsen er afar sérstætt skáld […] sem hefur öðru fremur en mörg
skáld önnur hugann við manninn sem lífveru. Það hefði þó eins vel mátt kalla hana
efahyggjumann sem horfist staðfastur í augu við takmarkanir homo sapiens, ef ekki
beinlínis efnishyggjumann sem gerir sér grein fyrir hvílík undirstaða ímyndunar-
aflið og draumurinn er í vitundarlífi manna. Hún veltir fyrir sér tilvist mannsins
sem lífveru bæði í fortíð og nútíð og greinir þá ósjaldan samfélag og menningu. Hún
hefur ekki aðeins lagt niður fyrir sér tengsl líkama og hugarstarfs heldur lítur svo á
að skáldskapurinn sé skilgetið afkvæmi holdsins og skynjunarinnar og kann að fara
þannig með hann að hann orki í krafti þess. Við bætist að hún leikur á allan skala
húmors og íróníu, fer betur með grótesku og hortugheit en flestir aðrir en hefur í
sömu mund vald á hinu fínlega og ísmeygilega. Ekki er því að undra að ljóð hennar
séu áhrifarík og ýfi jafnt tilfinningar, þanka og skynjun.“
***