Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Qupperneq 52
Þ r ö s t u r Ó l a f s s o n
52 TMM 2016 · 2
við hliðina á kristilega demókratanum Angelu Merkel í þessum átökum.
Og þeir virðast leika þar ekki ósvipað hlutverk og íslenskir jafnaðarmenn
fyrrum; til hliðar við Hriflu-Jónas. Boðskapur þeirra um frelsi, jafnréttindi
og bræðralag til handa flóttafólki í nauð, féll í ófrjóan jarðveg. Merkel var
búin að sá í þann akur á undan þeim og pópúlísk samtök höfðu ötullega
eitrað fyrir þess konar málflutningi. Jafnaðarmenn móta ekki lengur sýn
almennings‚ heldur eru þeir meðhlauparar. Þeir ryðja ekki brautir lengur.
Þetta er reiðarslag þeirrar hreyfingar, sem eitt sinn hafði framtíðina að léni
og mótaði samtíma sinn í spegilmynd hennar.
Fyrirboðar umbreytinga
Skruðningar tímans eru sannarlega allmiklir. Sumir segja að fortíðarhyggja,
með pólitískri einsleitni og orðfæri öfga og bábilju, bjóði öruggara skjól
gegn framtíð, sem „er ekki sú sem hún er vön að vera.“ Þetta séu fyrirboðar
mikilla umbreytinga. Djúpt niðri í þjóðarsálunum vaxi órói og ótti um að
velmegunin sem við höfum búið við frá stríðslokum, sé á útleið. Hlýnun
jarðar mun hafa í för með sér ófyrirsjáanlegar hörmungar fyrir stóran hluta
jarðarbúa. Þurrkar með miklum hitum herja nú á yfirborð jarðar, ekki
bara fyrir botni Miðjarðarhafs og sunnan Sahara. Þar þornar jörðin upp,
vatn hverfur og þar með lífsmöguleikar plantna, dýra og manna. Örsnautt,
matarlaust fólkið mun ekki bíða hungurdauða síns. Það mun aðallega leita
norður á bóginn. Verði þessar spár að veruleika munu upplausn og átök um
minnkandi lífsgæði innan svæða og milli landsvæða einkenna síðasta hluta
yfirstandandi aldar.
Þá færa þekktir amerískir hagfræðingar rök fyrir því að stöðug tækni-
þróun, sem knúið hefur áfram hjól hagvaxtar og velmegunar undanfarin
250 ár hafi hægt verulega á sér. Hún hafi líka sín endimörk og hafi þegar náð
hámarki sínu.
Ef efnahag vestrænna ríkja muni hnigna og verði pólitísk viðbrögð flótti
til fortíðar – þá eru vissulega mikil pólitísk vatnaskil framundan.
Nú er ég kominn að lokum þessara losaralegu hugleiðinga.
Þróun kapítalismans hefur sett meginhugsjón jafnaðarstefnunnar um
jöfnuð á hliðarspor. Þrátt fyrir að hafa verið möndull verkalýðshreyfinga í
yfir 100 ár – og þrátt fyrir þátttöku jafnaðarmanna í stjórn stórra sem smárra
vestrænna ríkja, verður misskipting, hvort heldur sem er tækifæra, auðs eða
tekna, sífellt augljósari, einnig hérlendis. Hér eflast eignastéttir og láta æ
meira til sín taka, meðan fátækt er aftur orðin smánarblettur á Íslandi. Með
aukinni misskiptingu rýrnar einnig lýðræðið. Enginn jafnaðarflokkur hefur
komið með marktækt andsvar við þessu. Því skrikar þeim fótur. Tiltrú á þá
dvínar.
Við sögðum áðan að framtíðin hefði alltaf verið til vinstri – meðan okkur
tekst ekki að skapa nýja og skarpari framtíðarsýn, sem hrífur fólkið, skír-