Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Qupperneq 6
G u ð m u n d u r A n d r i Th o r s s o n
6 TMM 2018 · 2
Þorsteinn var þjóðskáld. Það var ekki endilega vegna þess að bækur hans
væru keyptar í gríðarlegum upplögum heldur vegna hins, að hann hafði rödd
sem ekki líktist neinni annarri. Í þessari rödd skynjuðum við tempraðan
skaphita og tamdar ástríður. Hún vakti tilfinningu um trúnað og heilindi,
einlægni, sanngirni. Í þessari rödd var jafnaðargeð en líka ólga, þar var yfir-
vegun um leið og brýn erindi. Hún var lágmælt, barst samt gegnum holt og
hóla. Hún var full af þrá en miðlaði líka sátt, hún var hér og nú en þar var
eitthvað ævafornt. Hún ilmaði af kjarri og lyngbrekku og þar mátti greina
nið borgarinnar.
Fólk lagði við eyrun og hlustaði af alefli þegar þetta hógværa en staðfasta
skáld tók til máls því að það skynjaði í fasi hans og verkum, ljóðum hans og
rödd gildi sem kalla mætti þjóðleg og verðmæti sem kalla mætti alþýðleg,
ásetning um að leggja heldur stund á dyggðir en lesti; góðvild og kærleiksþel
en ekki hatur, hægð en ekki flaustur, umburðarlyndi en ekki dómhörku,
ákveðni en ekki flysjungshátt. Stellingarnar ekki hátíðlegar; stundum eins
og að sitja á hljóðskrafi við kæran vin, stundum eins og kunningjarabb með
óvæntum undirtónum. Þorsteinn er með öðrum orðum óvenju ástsælt skáld
og í sambandi hans og lesenda sá maður hvaða hlutverki skáldið gegnir í
þjóðlífinu sem rödd samvisku og heilinda; þeirrar hugmyndar að skáldið
viti eitthvað og finni eitthvað sem annað fólk þekkir ekki en þarf að frétta
af. Þetta var rödd í samtímanum sem huggaði og nærði. Þar var einhver
ávæningur af Íslandi sem við höfum stundum illan grun um að sé á förum.
En Þorsteinn orti líka stundum eins og þjóðskáldin gerðu fyrr á tímum.
Ekki síst í bókinni sem margir unnendur skáldsins hafa í mestum metum,
Fiðrið úr sæng Daladrottningar, frá 1977, þar sem allt er eiginlega í blóma
sem gerði hann að stórskáldi. Þar er ljóð sem heitir „Ísland“ og er það næsta
sem við nútímafólk getum komist því að yrkja ættjarðarljóð. Hér er snúið við
hefðbundinni yfirfærslu, þegar menn hafa í sér landið og náttúruna; landið
hefur í sér eiginleika sem við köllum mannlega hér:
Ég vil líkjast þér, land
en sætti mig samt
við mannsgervið og mannshugann –
og víst kvíslast blóðrás mín og kenndir
í líkingu lækja þinna.
Hvað um vor þín
með vatnagangi og skriðuföllum:
hitti þá einhver á æð eða kviku?
***