Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 65
M i t t í m e r k i n g a r k r í s u n n i
TMM 2018 · 2 65
báru þau fram slitin úr samhengi við heildarverk hans sem og yfirgripsmikil
skrif hans – og ollu ævistarfi hans þannig gríðarlegum skaða.“ Án nokkurra
útskýringa á aðdraganda þess að árásirnar komu til tals yfir höfuð – hvað þá
heldur hinni margslungnu, kosmísku heildarmynd sem raðast upp í verkum
hans – hjúpaðist Stockhausen „illum orðstír á einni nóttu,“ svo vitnað sé í
Hänggi, „þar sem fólk, sem aldrei hafði áður heyrt hans getið, þekkti nú nafn
hans og vissi að það tilheyrði mikilsmegandi tónskáldi sem hafði látið virki-
lega stuðandi ummæli falla um 11. september.“12
Skógganginn þoldi Stockhausen ekki einn. Við hlið hans, en af annarri
átyllu, gekk Ward nokkur Churchill, bandarískur rithöfundur og aktívisti
og þjóðfræðiprófessor við Háskólann í Colorado Boulder þegar árásirnar
áttu sér stað – eða „gagnárásirnar,“ eins og hann kallaði þær í samhengi við
stríðsrekstur og viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna víða um Austurlönd nær
og fjær. Í grein sem birtist í sinni fyrstu mynd fjórum dögum eftir árásirnar
vísaði Churchill til þeirra sem „raunveruleikaþerapíu“ og sagði Bandaríkja-
menn einfaldlega hafa bragðað á „dálitlum skammti af eigin meðulum“.
Hann rifjaði upp ummæli Malcolms X, eins leiðtoga frelsisbaráttu blökku-
manna á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, sem sagði morðið á John F.
Kennedy, forseta Bandaríkjanna, árið 1963 vera birtingarmynd einskonar
tilvistarlegs þyngdarafls: sá sem gerir öðrum mein hittir á endanum sjálfan
sig fyrir. Vildi Churchill meina að þann 11. september 2001 hafi Bandaríkja-
menn einfaldlega hitt sjálfa sig fyrir – ásamt hálfri milljón látinna írakskra
barna – við tvíburaturnana í New York. Hann hafnaði þeirri almennu orð-
ræðu að fórnarlömbin væru öll eðli málsins samkvæmt „saklausir borgarar“
og að árásin hafi verið „gerð án fyrirvara á varnarlausan almenning“, eins
og valdhafar víða um heim komust að orði;13 þeir sem voru í Varnarmála-
ráðuneytinu, sem og byggingin sjálf, hafi þvert á móti verið „hernaðarleg
skotmörk, hrein og bein“, á meðan þeir sem í turnunum unnu – vissulega
borgarar, „en saklausir? gimme a break“ – hafi saman myndað „teknó-
kratíska herdeild í hjartastað hins hnattræna fjármálaveldis Bandaríkjanna“,
og gert það bæði „af ásettu ráði og fúsum og frjálsum vilja“.14
Síðar lýsti Churchill því hvernig hann flakkaði milli stærstu sjónvarps-
stöðva Bandaríkjanna og heyrði fréttamenn unnvörpum lýsa árásunum –
talsvert áður en turnarnir tveir hrundu til grunna – sem „óútskýranlegum
verknaði“. En „hvernig gátu þeir sagt það?“ spurði hann – og rakti í kjölfarið
sögu bandarískra blóðsúthellinga í grófum dráttum: frá Íraksstríðinu fyrra
í upphafi tíunda áratugarins og viðskiptabanninu sem kom í kjölfarið (það
stóð enn yfir árið 2001 og varði þar til Saddam Hussein var allur tveimur
árum síðar), aftur til Pavonica-fjöldamorðanna árið 1643 sem lauk með
knattleik hollenskra forfeðra Bandaríkjamanna – landnemanna í Nýju
Amster dam sem síðar varð New York – sem spörkuðu afskornum höfðum
Wapp inger-indíánanna sín á milli á landspildu syðst á Manhattan, þar sem
safn listmuna „amerískra indíána“ stendur í dag, spölkorn frá minnisvarða