Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Page 12
Einar Kárason
jafnvel þvert gegn vilja manns. Þessi saga var tilefni samtalsins sem hér
fer á eftir þó að víðar verði komið við.
Löng og örlagarík kynni
Þú verður fyrir því eins ogfleiri íslenskir rithöfundar að vera sífellt lesinn
með símaskrá við hönd, eins og Einar Már orðar það. Þú ert þýfgaður um
fyrirmyndir að persónum bóka þinna, og þó að þú eigir til að flýja hratt
undan slíkum spurningum verður varla komist hjá þeim í sambandi við
Storm. Þeirsem þekkja Þórarin „Agga“ Þórarinsson (sem þú tileinkaðir Þar
sem djöflaeyjan rís á sínum tíma) segjast beinlínis heyra rödd hans þegar
þeir lesa tilsvör söguhetju. Viltu ekki segja mér söguna af kynnum ykkar
Agga og hvernig samskipti ykkar speglast í þessari sögu.
„Jú, ég er alveg til í það,“ segir Einar. „Ég var satt að segja skíthræddur
um að þú ætlaðir að láta mig staðfesta hver væri fyrirmyndin að Eyvindi
Stormi - sem er ekki hægt - en ég get vel sagt þér frá kynnum okkar Þór-
arins.
Það eru nokkuð merkileg og örlagarík kynni sem ég hafði af þeim
ágæta manni. Þau hófust þannig að við vorum bekkjarbræður í barna-
skóla, byrjuðum báðir níu ára gamlir í Æfmgadeild Kennaraskólans. Ég
þekkti engan, settist bara við eitthvert borð og kynnti mig fyrir sessunaut
mínum. Hann sagðist heita Þórarinn Óskar Þórarinsson - „en allir kalla
mig Agga,“ bætti hann við. Þetta er alveg ógleymanlegt. Hann bjó á
Grensásvegi hjá foreldrum sínum en ég á Háaleitisbrautinni eftir að við
fluttum úr Úthlíðinni, og við héldum töluvert hópinn. En það var ýmis-
legt dularfullt við hann og hans bakgrunn. Ég fór í tíu ára afmælið hans
og kynntist aðeins móður hans og stjúpföður, en svo var hann allt í einu
fluttur vestur í bæ til ömmu og afa. Þá skildi leiðir að nokkru þótt hann
héldi áfram í Æfingadeildinni. Hann var eini alvöru töffarinn í bekknum,
stór og mikill, bráðþroska, reykti sígarettur og varð fslandsmeistari með
KR í fótbolta. Hann óx dálítið upp úr okkur. Svo útskrifuðumst við úr
barnaskóla vorið '68 og næstu árin sá ég hann varla nema kannski bregða
fyrir á balli.
Haustið 1979 flutti ég til Kaupmannahafnar með fjölskyldunni. Ég átti
ágætan kunningja í Árósum, Pétur Örn Björnsson sem var að læra arki-
tektúr, og snemma árs 1980 ákvað ég að fara yfír til Árósa að heimsækja
hann. Konan mín þekkti konu Agga frá fornu fari, þær höfðu verið ná-
grannar í Kópavoginum, og hún ákvað að heimsækja hana í leiðinni, því
þau Aggi höfðu flutt til Árósa sama haustið og við til Kaupmannahafnar.
Þannig stóð á því að við komum inn á heimili þeirra, og þar hitti ég affur
10
TMM 2004 • 2