Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Qupperneq 91
Mea culpa, mea maxima culpa ...
beth Larsson3 eru hins vegar sammála um að hversu mjög sem póst-
módernískir fræðimenn hafi ráðist á alla hluta orðins „sjálfs-ævi-saga“
og afbyggt hvern fyrir sig og alla í senn í tuttugu og fimm ár, þá hafi af-
leiðingar þess aðeins orðið til að æsa upp í mönnum ævisagnahungrið.
Hvers vegna? Er það hreint afturhvarf eins og Engdahl segir?
Gratton segir að formgerðarstefnan sem réði ríkjum í Frakklandi frá
miðjum sjötta til miðs áttunda áratugarins hafi verið gengin sér til húðar,
þörf hafi verið fyrir breytingar og aðgerðir og þær verði að bera uppi af
gerendum, „hugveran hafi snúið aftur“, breytt, flóknari, óáreiðanlegri og
öðru vísi, en komin sé hún enn á stjá.4 Lisbeth Larsson segir einfaldlega
að okkur hafi aldrei tekist að losna við hugveruna, þó að henni sé af-
neitað þrisvar hafi það aðeins orðið til að festa hana í sessi. í því sam-
bandi má benda á að neitunin er aðferð þeirrar sköpunarsögu sem við ís-
lendingar þekkjum best frá Völuspá þar sem heiminum er lýst með því
sem hann ekki er: „var-a sandur né sær/né svalar unnir." Lisbeth Larsen
rekur umræðuna sem fór fram um dauða hugverunnar á áttunda og
níunda áratugnum en sumir fræðimenn hafa ályktað sem svo að ævi-
sagnahungrið endurspegli þrá manna eftir samhengi og merkingu í póst-
módernískum heimi þar sem bæði stórar og litlar frásagnir eru fallnar.
Aðrir eru á andstæðri skoðun og telja að áhuginn á ævisögunni endur-
spegli sterka einstaklingshyggju vorra tíma þar sem menn kjósi að trúa að
einstaklingurinn en ekki samfélagið leysi vandann.5 Enn aðrir undir-
strika eins og Gunnþórunn Guðmundsdóttir að ævisagan er ekkert eitt,
hinar ævisögulegu bókmenntagreinar eru margar og margvíslegar. Hún
fjallar síðan um sjálfsævisöguna, um afstöðu manna bæði til sinnar per-
sónulegu sögu og fortíðar og veruleika yfirleitt, brigðult og óáreiðanlegt
minni, notkun og endurnotkun á sagnaminnum og náið samband sjálfs-
ævisögunnar og skáldsögunnar.6
Þrjár stjörnur
Bækurnar sem hér verður fjallað um eru ævisaga Lindu Pétursdóttur,
Linda - Ljós & skuggar, Ruthar Reginalds, Ruth Reginalds, og sjálfs-
ævisaga Lindu Vilhjálmsdóttur, Lygasaga. Fleiri ævisögur og sjálfsævi-
sögur kvenna komu út fyrir síðustu jól en þessar eru valdar vegna þess
hve marga athyglisverða þætti þær eiga sameiginlega. Allar eru aðalper-
sónurnar fíklar og hafa notað vímuefni og áfengi sem þær misstu tökin
á. Sambýlismenn Lindu P. og Ruthar beittu þær ofbeldi sem braut þær
niður og skaddaði sjálfsmynd þeirra. Allar þrjár hafa átt við alvarlegar
geðraskanir að stríða. Allar leituðu þær sér hjálpar að lokum og fóru í
TMM 2004 • 2
89