Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Blaðsíða 80
Birgir Hermannsson
Stóra bollan
Stundum er sagt að raunveruleikinn sé lygilegri en nokkur skáldskapur.
í greininni hér á eftir tek ég til umfjöllunar mál sem tröllreið íslensku
þjóðfélagi um tíma og hvarf svo. Málið hefur öll einkenni skáldskapar,
svona líkt og það hefði verið samið inn í samfélagið, bókinni síðan lokað
og hún sett upp í hillu. Þar er málið síðan geymt, þó ekki sé það gleymt;
skáldskapur hefur, eins og við vitum, áhrif með ýmsum hætti. Málið allt
einkennist ekki síst af því að á stundum er með öllu óljóst hvað er skáld-
skapur og hvað raunveruleiki.
„Stóra bollan“ er eitt furðulegasta mál í stjórnmálasögu íslands og þó
víðar væri leitað. Á bolludaginn, 3. mars 2003, ásakaði Davíð Oddsson
forsætisráðherra forsvarsmenn Baugs um að hafa rætt sín á milli um að
bera á sig fé, hvorki meira né minna en 300 milljónir króna. Hreinn
Loftsson, stjórnarformaður Baugs, tjáði Davíð þetta á fundi sem þeir áttu
saman í London þann 28. janúar 2002, þó að frásögn Hreins af þeim
fundi sé raunar nokkuð önnur en Davíðs. Nokkrum dögum áður, 22.
janúar 2002, hafði Davíð veist harkalega að Baugi í ræðu á Alþingi og sagt
að til greina kæmi að skipta upp fyrirtækinu. Bolludagsmálið einkennd-
ist einnig af hörðum árásum Davíðs á pólitíska andstæðinga sína: hann
sakaði þá um spillingu og lýsti því yfir að nánast hann einn stæði gegn
framsókn óæskilegra afla í íslensku samfélagi.
Margt í þessu máli er vert umfjöllunar. í fyrsta lagi er ýmislegt við
framgöngu ráðherrans að athuga. í öðru lagi benda viðbrögð fjölmiðla til
að þeir ráði illa við erfið mál af þessu tagi, og í þriðja lagi er þögnin sem
þetta mál er sveipað vísbending um að margt sé rotið við stjórnmála-
menningu landsmanna. íslendingar bera sig gjarnan saman við nágranna-
þjóðir sínar, en óhætt er að fullyrða að afar ósennilegt er að slík upp-
ákoma ætti sér stað í nágrannalöndum okkar, og ef svo ólíklega vildi til
yrðu viðbrögðin við henni með öðrum hætti en raun bar vitni hér á
landi. Þetta eitt og sér verðskuldar umfjöllun. Það er einnig áleitin spurn-
78
TMM 2004 ■ 2