Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Qupperneq 104
Menningarvettvangurinn
Saknað
íslenskar bókmenntir hafa misst tvo ómissandi liðsmenn á árinu þótt enn sé
það ekki hálfnað þegar þetta er skrifað. Annar þeirra er Svava Jakobsdóttir sem
lést 21. febrúar sl. á 74. aldursári (f. 4. október 1930). Hún kom sem endur-
nýjandi kraftur inn í íslenskar lausamálsbókmenntir strax með sinni fyrstu bók,
Tólfkonum (1965). Stíll hennar var nýstárlegur, frásagnarhátturinn vekjandi og
efnið ögrandi, og átti þó allt þetta eftir að þróast hratt í óvæntar áttir á næstu
árum.
Það var ómetanlegt fyrir ungar hugsandi konur hér á landi á hinum róttæka
áttunda áratug aldarinnar tuttugustu að fá málpípu eins og Svövu, og sennilega
í eina skiptið á ævinni sem þeim hópi fannst hann „eiga“ rithöfúnd, eiga sitt
eigið skáld. Hugmyndaríkan snilling sem talaði til okkar sérstaklega og persónu-
lega þannig að við urðum sjálfar merkilegar persónur. Lesturinn á smásagna-
safninu Veislu undir grjótvegg, sem út kom 1967, er ógleymanlegur; kannski var
það sú bók sem hafði mest áhrif á okkur, ungu konurnar í rauðu sokkunum sem
litum upp til Svövu eins og hofgyðju. Loforðin sem sú bók gaf voru svo uppfyllt
með Gunnlaðar sögu (1987) þar sem hún tengir skáldskapinn á sannfærandi hátt
við kvenkynið og kveneðlið þótt honum hafi í öndverðu verið rænt af okkur.
Það verk Svövu sem hefur óvæntasta skírskotun til samtímans á 21. öldinni er
þó Leigjandinn (1969), ekki síst endirinn, en magnað myndmál hans má meðal
annars lesa sem máttleysi hinna auðugu Vesturlanda gagnvart örbirgð þriðja
heimsins.
Snilld Svövu sem höfundar náði hæst í smásögunum - í Tólf konum,
Veislunni, Gefið hvort öðru (1982) og Undir eldfjalli (1989). Meðal þeirra eru
sögur sem á táknrænan hátt sýndu hlutskipti kvenna þannig að ekki varð undan
því vikist að skilja. Mér er minnisstætt þegar kvennablaðið Hrund frumbirti
Sögu handa börnum árið 1967. Ég var blaðamaður þar þá og fullyrði að það hafi
allt orðið vitlaust. Síminn þagnaði ekki í marga daga og fólk var ævareitt.
Einkum konur. „Ég las þessa sögu fyrir börnin mín,“ sagði ein, „af því hún heitir
Saga handa börnum, og ég varð að hætta í miðju kafi, hún er ógeðslegl “ Það er
líka alveg rétt, en sönn er hún á táknmáli sínu. Má ekki sannari vera.
Svava lifir í verkum sínum og við fögnum því að hafa átt rithöfund á heims-
mælikvarða eins og hana. Það verður aldrei metið sem skyldi.
Hinn liðsmaðurinn er Matthías Viðar Sæmundsson sem féll frá á besta aldri
3. febrúar. Hann hefði orðið fimmtugur í sumar (f. 23. júní 1954). Matthías var
dósent við íslenskuskor heimspekideildar Háskóla íslands, hennar metnaðar-
mesti og mikilvirkasti starfsmaður hin síðari ár. Missir nemenda og allra unn-
enda frumlegra bókmenntarannsókna er illbætanlegur.
Það hafði talast svo til milli okkar Matthíasar að við hann yrði viðtal í þessu
hefti Tímaritsins, meðal annars um íslenskar samtímabókmenntir, þróun þeirra
og stöðu og kennslu þeirra á háskólastigi. Ég vildi fá að spjalla við hann fyrir
fýrsta heffi ársins en hann bað mig að gefa sér næði fram að öðru hefti vegna
þess að hann vildi fá að verða hress eftir krabbameinsmeðferð áður en við hitt-
102
TMM 2004 • 2