Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Page 58
Berglind Gunnarsdóttir
í Rógmálmi og grásilfri er að finna ástarljóðin um Möggu:
Þú sem læðist framogaftur
um drauma mína og skýst
inní þá og útúr þeim að vild
einsog þú eigir þá, hlustaðu á mig, Magga
Seinna í ljóðinu („Til þín sem mig dreymir daginn útoginn í kvöld“)
íklæðir hann Möggu fyrirbærum og myndlíkingum úr náttúrunni svo
hún verður eitt með henni.
Magga, steyptu yfir þig
misturskirtli og snaraðu móðusjali
um herðar þér, knýttu þokutraf um mittið
og settu upp huliðshjálm: skuplu
úr dalalæðuslæðu, komdu svo gángandi
hingað í einum grænum
á skóm úr góðviðrisbólstrum og kysstu mig.
Ég man þegar hún Magga kom inn á Mokkakaffi til að sækja sinn mann
sem sat þar löngum stundum og talaði. Þetta var upp úr 1970. Hún kom
hljóðlega inn og stóð kyrr nokkra stund á meðan Dagur var að ljúka við
sínar löngu og stóru setningar og standa á fætur. Þau voru miklar and-
stæður. Hún var jafnhæglát og hann var hávær. En ég heyrði frá þeim
sem vöndu komur sínar heim til þeirra á Miklubrautina að Magga væri
engan veginn skoðanalaus kona en héldi fram ýmsu jafneinarðlega og
Dagur. Ég virti hana fyrir mér, þetta var ung kona og samt orðin margra
barna móðir, og ég gat áreiðanlega ekki málað mig í spor hennar. Það var
við hana eitthvað bæði stórt og erfitt.
En í ljóðunum til Möggu er að finna meiri nánd og tilfinningahita en
öllu jafna í ljóðum Dags um konur.
Á þeim tíma er fyrstu ljóðabækur Dags koma út er borgin enn dálítið
sveitó og ekki búið að afmá til fulls uppruna hennar. Það má enn víða
njóta náttúrustemmninga í Reykjavík þrátt fyrir fylgifiska borgarsamfé-
lagsins og ört vaxandi tækniheims: ganga út í Örfirisey þegar vorið er á
næsta leiti, örlítið hreifur af víni og horfa á sólarlagið - eða „gapa framan
í sólina“, eins og Dagur orðar það. Á síðustu dögum Dags var búið að
girða fyrir mörg slík afdrep, búið að steypa upp holtin og grasbalana.
Borgin umlukti hann sínum kalda steinfaðmi og hann flýði undan stein-
runnum atlotum hennar inn á krárnar.
Það er sveitamaðurinn í Degi sem heldur fram eftirfarandi um nútíma
borgarstúlku 6. áratugarins í Reykjavík í bókinni Hlutabréf í sólarlaginu:
56
TMM 2004 • 2