Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Blaðsíða 31
Dulmagn Vigdísar
Allar sögupersónurnar sem hér eru kynntar til leiks koma við sögu strax í
Frá ljósi til ljóss. Og um leið og þroskasaga Rósu er þungamiðja þessa fyrsta
hluta þríleiksins þá er fjölskyldutré hennar lýst af nákvæmni að íslenskum
sið. Hún er dóttir norræna sveimhugans Lenna og Magdalenu sem deyr
við barnsburð. Sameiginlegur vinur foreldranna, Róbert, tekur þátt í því
ásamt föðurnum að skapa um Magdalenu draumkennda ímynd veru sem
allt skynjar og skilur; einhverskonar álfkonu sem hefur djúpstæð áhrif á líf
Rósu. Á fO ára afmæli hennar kemur að fyrstu kveðjustundinni: „Þegar ffá
öllu var gengið og Róbert og Helena voru flutt heim til Rósu lagði Lenni af
stað að leita hamingjunnar.“ (34) Stúlkan segir fátt og „grét ekki þegar
Lenni fór í burtu“ (35), en hugsar með sér: „Góða ferð til Rósu Cordovu,
pabbi minn, við sjáumst örugglega seinna.“ (35) Sú verður líka raunin, en
ekki fyrr en mörgum árum seinna og ekki fyrr en lesandinn hefur fylgt
Rósu um ævintýraheim unglingsáranna, í gegnum kynni hennar af dul-
magni ástar og kynlífs sem endar með því að hún eignast barn með fóstra
sínum sem við lærum síðar að er í raun og veru faðir hennar.
En það eru fleiri áhrifavaldar í lífi Rósu en Lenni, Róbert og Magda-
lena og þá sérstaklega vinkonan sem hún kallar Lúnu. Lúna býr í hverf-
inu, gengur í sama skóla og þolir ekki ímyndunarveiki (46), þó líf hennar
sé eftirmynd af lífi mexíkóska málarans Fridu Kahlo. Hún er hölt eins og
Frida, hún er með samvaxnar augabrúnir eins og Frida og hún málar
myndir sem menn tóku „fljótlega eftir að [...] minntu ónotalega á
myndir Fridu Kahlo. Kennararnir bentu henni því góðfúslega á að eftir-
hermur gengju aldrei“ (110). Frjótt ímyndunarafl vinkvennanna glæðir
textann lífi sem ekki er algengt í íslenskum bókmennum samtímans,
nema ef vera skyldi í fyrri verkum Vigdísar Grímsdóttur.' En tilvera vin-
kvennanna er íslensk, hún er reykvísk og hún er raunveruleg og jarð-
bundin. Jafnvel þegar Rósa heyrir svarta dúfu segja: „ - Ég mun sannar-
lega koma þér á óvart“ (64) og þegar henni fannst „bragð af andardrætti
sínum og lykt af minningunum“(78) við meydómsmissinn, þá er það
frjótt og óbeislað ímyndunarafl unglingsins en engin dulin öfl sem
stjórna því. í leit sinni að fyrirmyndum og að svörum um framtíðina
leggst hún yfir dagbók móður sinnar og spáir í spil. Hún rennir „fingr-
unum yfir röðina þangað til hún fann hita streyma upp frá ákveðnum
stað. Þá skellti hún fingri á spil og dró úr röðinni hina bláu rós um-
burðarlyndisins“(102). Stelpurnar láta spilin og önnur hefðbundin
hjálpartæki unglingsstelpna á íslandi segja sér fyrir um ókomna tíð en
taka um leið af skarið í eigin málum. Þær ráða ferðinni í samskiptum
sínum við aðra, hvort sem um er að ræða fullorðna eða æskuástirnar,
bræðurna Bláan og Brúnan, sem þær nefna svo eftir augnalit þeirra.
TMM 2004 • 2
29