Tímarit Máls og menningar - 01.05.2004, Blaðsíða 48
Böðvar Guðmundsson
„For the kids,“ segir hermaðurinn og kveður að hermannasið.
Svo hverfa þeir út í myrkrið.
„Það sem þeim ekki dettur í hug,“ segir Jóhannes þegar þeir eru
horfnir út um lágar fjósdyrnar. „Við verðum að passa að krakk-
arnir séu ekki að fíkta í ljósinu.“
Afleiðing þessarar heimsóknar er blátt bann við þeim ágæta leik
að kveikja og slökkva á víxl. Það skilja allir nema óvitar sem verður
að gæta sérstaklega þegar fer að rökkva. Samt er það töluvert ævin-
týri að bíða rökkursins næstu daga því ljósið er svo gott.
Svo hægir tíminn aftur á sér, stendur loks kyrr. Stundum er gola og
ljós, stundum er logn, þá er líka ljós en þarf að spara því geymarnir
geyma ekki lengi. Stundum er rok og þá snýst vængur rellunnar með
þvílíkum djöfulgangi að allt ætlar um koll að keyra og Jóhannes
hangir í rellustrengnum og tekst með hörku að lerækja honum á sex-
tommuna. Stundum er snjór, stundum er rigning og dagarnir eru
svo hver öðrum líkir að það er óþolandi og óskandi að eitthvað gerð-
ist. Draugar og mannætur láta ekki á sér kræla innandyra eftir að
rellan kom, en í útihúsum og kofum er allt við það sama, sæktu fýrir
mig, sæktu, sæktu. Úti eru steypiflugvélar og ísbirnir sem fyrr.
Einn morgun er allt grátt, svellbunkar á túni, rok og rigning. Það
er enginn litur lengur til. Út um gluggann sér í ána, hún er grá,
snjólausar malareyrarnar eru gráar, túnið er líka snjólaust og grátt,
fjöllin og jöklarnir í austri eru horfnir í grá ský.
„Déskoti sem hann spáir illa,“ segir Jóhannes við Sólu, sem er að
sjóða vatn í gríðarstórum potti á eldavélinni og ætlar að þvo þvott.
„Þú þurrkar þetta varla í dag, elskan mín,“ segir hann svo og
bendir á óhreinatausbunkann. „Viltu ekki bíða að hann stytti upp.“
Það vill Sóla ekki. „Það styttir alltaf upp þegar ég hengi út þvott-
inn,“ svarar hún og er bjartsýn.
„Ég held bara að hann sé að ganga upp í rok,“ segir Jóhannes.
„Þeir eru vondir útmánaðalandsynningarnir.“
Það er rétt sem Jóhannes segir. Hann er að ganga upp í rok. Það
gnestur í húsinu og laus járnplata á fjósþakinu byrjar að lemjast.
Jóhannes fer út og ber á hana grjót.
„Það er að verða óstætt úti,“ segir hann þegar hann kemur inn
aftur. „Ég held bara þú ættir að slökkva á eldavélinni meðan rokið
gengur yfir.“
46
TMM 2004 • 2