Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Qupperneq 88
ÁRNI BERGMANN
Á valdadögum Khrúsjovs á sjötta áratugnum batnaði hagur manna í
Sovétríkjunum verulega, bæði að því er varðar almenn lífskjör og svo
vegna minnkandi ótta við leynilögreglu, en um leið hverfur hin heita og
einlæga Sovéttrú á Vesturlöndum. Það gerðist ekki aðeins vegna þess
áfalls sem hún varð íyrir þegar arftaki Stalíns á aðalritarastól Kommún-
istaflokksins rekur í frægri „leyniræðu“ margskonar glæpi leiðtogans
mikla. Tvennt gerist í senn: menntamenn eru ekki jafn vantrúaðir og þeir
voru á kreppuáratugnum á kapítalisma og lýðræði heima hjá sér og um
leið hefur sovétrússneskur hvunndagsleiki færst nær. í heimi aukinna
samskipta þekkja menn hann betur en áður.
Það skipti þá ekki höfuðmáli hve ólíkur eða líkur vestrænum samfé-
lögum hann reyndist vera. Mestu varðaði, að hann var ekki lengur
spennandi, ekki fullur fyrirheita. Allur vindur var úr þeirri hugmynd að
í Sovétríkjunum væri allt nýtt. Þekking tók við af óskhyggju, gloppótt að
sönnu en mun raunsæislegri en áður. Hin pólitíska óskhyggja eða útóp-
ismi, flutti annað, í nýtt Langtburtistan. Sumir fóru með trúarþörf sína
til Kína á dögum menningarbyltingar eða þá til Kúbu eða eitthvað
þangað í Þriðja heiminum sem menn sáu mjóan mikils vísi. Afstaða
manna til Sovétríkjanna varð ekki það hita- og tilfinningamál sem verið
hafði. Hún tók í litlum mæli mið af trúarþörf, en þeim mun meir af alls-
konar praktískum sjónarmiðum: vildu menn eiga í Sovétríkjunum afl
sem gæti hamlað gegn miklu veldi Bandaríkjanna? Eða þurftu þeir á
þeim að halda í arðsömum viðskiptum? Afstaða vinstrigáfumanna var
einatt tvíbent: þeir litu ekki á Sovétríkin sem stóran vonargjafa, þeir
gagnrýndu mannréttindabrot og ritskoðun, samt töldu þeir margir að
þau hefðu enn vissu gagnlegu hlutverki að gegna í heimstaflinu.22
Úr sögu Staðleysunnar
Afstaða vestrænna gáfumanna til Rússlands er merkilegur kafli í sögu
Staðleysunnar, Útópíunnar. Staðleysa er land þar sem draumar gáfu-
manna um skynsamlegt og réttlátt þjóðfélag hafa ræst - eða þá staður þar
sem allt hefur farið á versta veg (dystópía). Staðleysunni er stundum
komið fyrir í gullaldarfortíð, stundum á fjarlægri eyju úti í veraldar-
sjónum, stundum úti í geimnum eða þá í fjarlægri framtíð. En þeir sem
velta fyrir sér möguleikum og háska í þróun samfélaga hafa líka á
hverjum tíma viljað finna Staðleysunni stað í eigin samtíð. Þeir leita sér
lands eins og Rússlands, sem er hæfilega lítið þekkt til að þar sé gott svig-
rúm fyrir ímyndunaraflið, sem velur sér síðan eitthvað jákvætt til að spila
úr. Allt í anda þeirrar þarfar, sem lagt var upp með: að telja sig vita að ein-
86
TMM 2004 • 3