Tímarit Máls og menningar - 01.09.2005, Side 103
Bókmenntir
eru töflur réttar að Stefáni og hann látinn velja milli þeirra, þó ekki sé milli blárrar
pillu og rauðrar eins og í kvikmyndinni. Ofbeldið sem gegnsýrir heiminn í bók-
inni er aftur á móti í ætt við hrárri ofbeldismyndir en Matrix.
Svartur á leik á það sameiginlegt með Dauðans óvissa tíma að samtölin eru
oft stirð. Raunar er merkilegt hversu sjaldgæft virðist að íslenskir rithöfund-
ar hafi eyra fyrir talmáli og samtölum, eða a.m.k. tekst þeim þá sjaldnast að
láta það skila sér á pappírinn. Með stirðum samtölum á ég ekki við goðsagna-
kennda orðræðu sumra persónanna í Svartur á leik en á þeirri forsendu varði
Jón Yngvi Jóhannsson samtölin í grein í þessu tímariti fyrr á árinu.10 Orðfæri
af slíkum toga þjónar tilgangi í bókinni þar sem menn máta sig við ýmis
hlutverk, setja sjálfa sig á svið, lifa í skáidskap. Sem dæmi má nefna að æft
er fyrir bankarán og hluti af „búningunum" geymdur fram að „lokaæfingu“
(423-424). Tóti, sem er dyravörður við upphaf bókarinnar, breytir hlutverka-
skipaninni, setur sjálfan sig í aðalhlutverk þegar sögunni vindur fram og er
meðvitaður um hlutverkaleikinn. f einni senunni setur hann upp skíðagrímu
því þá „slökknar á sjálfinu og það er eins og maður sé dauðinn sjálfur“ (335).
Við aðrar kringumstæður lítur hann á sig sem einhvers konar refsiengil og þyl-
ur texta úr Opinberunarbókinni (316-317, 417). Samtöl sem innblásin eru af
slíkum textum skipta máli í heildarsamhenginu. Lögfræðingurinn Victor snýr
líka út úr frægum orðum á þennan veg: „Sá sem ekki lifir í skáldskap [...] hann
lifir ekki af í undirheimum Reykjavíkur" (264).
Venjulegu samtölin eru aftur á móti stirð að ástæðulausu, stirðleikinn þjón-
ar t.d. engum tilgangi í yrðingum á borð við: „Ég tilkynnti Tóta um skuld og
hvarfþessa Nemós ...“ (35-36). Óhófleg notkun á hátíðlegum orðum í því sem
á að vera talmál er líka tilgangslaus, t.d. aðeins, starfa, greiða (þar sem nærri
allir segja bara, vinna, borga ...) í byrjun virkar þetta að vísu trúverðugt fyr-
ir aðalpersónuna, pilt sem reynir kannski að bera sig mannalega og virðast
greindari en hann er - en til lengdar verður þetta of einhæft. En þótt samtölin
séu stundum lífvana eru lýsingarnar það ekki, þær eru margar glæsilegar eins
og þessi:
Innyflin syntu í hringi í kviðarholinu og mér var flökurt en ég var of þreyttur
til að geta ælt. Hver einasti vöðvi kraumaði og bólgnaði út eins og steik í heitum
ofni, mér fannst þunnt og loftbólukennt blóðið streyma út um galopnar svita-
holurnar í soðinni húðinni, það ískraði í beinunum, tungan bólgnaði upp og
hlykkjaðist um eins og slanga í slímugum munninum. (300)
Stefán Máni er flinkari í því sem gerist í hausnum á fólki en því sem sagt er
og hann er flinkari í umhverfislýsingum og stemningu en framvindu. Þráður-
inn í Svartur á leik er ekki alltaf nógu sterkur og ofgnótt ofbeldisins verður
yfirþyrmandi á köflum - en reyndar þjónar það vissulega tilgangi og sýnir
brenglað hugarfarið vel. Þegar líður á bókina styrkist söguþráðurinn, en líkt og
í fyrri bókum Stefáns Mána fyllist textinn mestu lífi í smáatriðunum, jafnvel
svo miklu lífi að lesandinn finnur næstum lykt og bragð.
TMM 2005 • 3
101