Þjóðmál - 01.03.2020, Blaðsíða 38
36 ÞJÓÐMÁL Vor 2020
Sameina má og leggja niður stofnanir
Þú segir að hægrimenn hafi verið gagnrýndir
fyrir að taka hagsmuni atvinnulífsins fram yfir
hagsmuni velferðarkerfisins. En sumir myndu
halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn eigi það
til að taka hagsmuni hins opinbera fram yfir
hagsmuni atvinnulífsins. Hvernig svarar þú því?
„Ég hef alveg fundið fyrir þeim málflutningi,
sem snýr helst að reglugerðarfargani og
vaxandi eftirlitsiðnaði. Ég skil hvaðan sá mál-
flutningur kemur og ég tek undir hann að
miklu leyti,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Ég tel þó að pirringurinn út í ríkið væri minni
ef við værum komin lengra í innleiðingu á
stafrænum lausnum, sem við erum að vinna í
af fullum krafti og Bjarni Benediktsson hefur
gert gangskör í, og værum með skilvirkari
ferla innan stofnana, þannig að þær væru að
svara erindum innan tímamarka. Ríkis stofnanir
verða að sinna þjónustuhlutverki sínu vel,
þær eru til fyrir borgarana en ekki öfugt.“
Þórdís Kolbrún segir það rétt að ríkið, og þar
með ríkisvaldið, hafi stækkað, ekki bara á
liðnum árum heldur áratugum.
„Við þurfum þó að hafa í huga að við erum
að búa til meiri verðmæti en áður. Þá tel ég
að hægt sé að gera eðlilega kröfu um að
samfélagið í heild sinni fái einhverja hlutdeild
í því. Þannig getum við byggt upp það öfluga
velferðarkerfi sem ég ræddi áðan,“ segir
Þórdís Kolbrún.
„En ég heyri líka, bæði frá hægrimönnum og
öðrum, að ríkið eigi að gera hitt og þetta. Það
er aftur á móti ekki hægt í sömu setningu að
biðja um lægri skatta og minna ríki en vera
um leið á móti hlutum á borð við tekju-
tengingu lífeyrisgreiðslna til betur settra
eldri borgara, breytt fyrirkomulag gjaldtöku í
vegaframkvæmdum og þannig mætti áfram
telja. Við erum með tekjutengingar í barna-
bótum og sambærilegum greiðslum af því að
við viljum beina fjármagninu þangað þar sem
þess er mest þörf. Það sama á við í almanna-
tryggingakerfinu, sem hefur vaxið mikið.“
En snýr þessi gagnrýni ekki frekar að fjölgun
starfa hjá ríkinu, stærra hlutverki eftirlits-
stofnana og svo framvegis?
„Jú, og við finnum alveg fyrir því. Þess vegna
höfum við Kristján Þór Júlíusson farið í tiltekt
í atvinnuvegaráðuneytinu til að bæta úr þessu,
bæði með úttekt á lögum og reglugerðum
sem eru úrelt en einnig í stærri verkefnum
sem felast í því að endurskilgreina þær kröfur
sem gerðar eru til atvinnulífsins,“ segir Þórdís
Kolbrún.
Sjálf kynnti Þórdís Kolbrún nýlega áform um
að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
„Hluta af þeim verkefnum sem hún sinnir
er markaðurinn að sinna, þó að hann hafi
ekki gert það fyrir 15 árum þegar stofnunin
var sett á laggirnar. Annar hluti af þessum
verkefnum verður áfram til á skynsamlegri
stað, nær háskólasamfélaginu og frum-
kvöðlum,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Við eigum að vera óhrædd við að meta
verkefni upp á nýtt. Það koma sífellt ný
verkefni inn á okkar borð, það verða til nýjar
kröfur og ný löggjöf og þannig mætti áfram
telja. Við erum hins vegar of treg til að horfa
á grunninn eins og hann er og spyrja: „Á
þetta að vera svona?“ Við erum þess í stað of
upptekin við að byggja ofan á það sem fyrir
er. Það er mín pólitíska sýn að við eigum að
nýta betur þá krafta sem verða til í svo-
kölluðum PPP-verkefnum, með samstarfi
opinberra aðila og einkaaðila. Með fleiri sam-
starfsverkefnum hins opinbera og atvinnu-
lífsins náum við fram auknum kröftum
einkageirans til að keyra mál áfram og ég
held að allir njóti góðs af því, hvort sem það
er í samgönguverkefnum, í nýsköpun í
atvinnulífi, innan háskólasamfélagsins eða
annars staðar.“