Þjóðmál - 01.03.2020, Blaðsíða 85
ÞJÓÐMÁL Vor 2020 83
Heimsstyrjaldirnar, rússneska byltingin og
valdaskeið þjóðernissósíalismans í Þýskalandi,
ásamt iðnvæddum stríðsrekstri, ollu
eyðileggingu á áður óþekktum mælikvarða
og voru uppspretta hörmunga sem eiga sér
fá eða engin fordæmi í mannkynssögunni.
Meginhugmynd greinar þessarar er hins
vegar sú að þessi öld öfganna sé enn ekki
liðin. Í stað „stuttrar“ tuttugustu aldar, sem
tekið hafi enda þegar hamarinn og sigðin
voru dregin af húni í hinsta sinn, sé hinn
vestræni heimur þvert á móti enn í viðjum
„langrar“ tuttugustu aldar, sem enn sér ekki
fyrir endann á.
Ástæðan er sú að viðleitni eftirstríðsáranna
til að endurreisa frjálslynt samfélag byggt
á þjóðríkinu og almennri velferð strandaði
í róttækum tilraunum til að umbylta þeirri
samfélagsgerð. Ein þessara tilrauna var
Evrópusamruninn, sem miðaði að því að
gera þjóðríkið óþarft og virðist nú að miklu
leyti hafa gengið sitt skeið á enda. Önnur
var stúdentabyltingin, sem markaði hins
vegar vendipunkt í sögu eftirstríðsáranna og
varðaði leiðina inn í nýja tegund samfélags
– póstmóderníska einstaklingssamfélagið
og rökrétta afleiðu þess, fjölmenningar-
samfélagið. Þessi nýja samfélagsgerð
einkennist umfram allt af róttækri túlkun á
sjálfsforræði einstaklingsins, leitinni að full-
komnu jafnrétti og krossferð gegn meintum
fordómum og mismunun.
Samfélagsbreytingarnar hafa valdið
fordæma lausu umróti í vestrænu samfélagi,
því nýja samfélagsmódelið er rík uppspretta
þversagna, sem munu líklega á endanum
bera það ofurliði.
Aðdragandi „löngu“ tuttugustu
aldarinnar og gullöld þjóðríkisins
Löngu áður en hið afdrifaríka ár 1914 rann
upp var það orðið sannfæring margra að
Vesturlönd væru í djúpri tilvistarkreppu.
Upplýsingin hafði opnað leið Evrópu að
þekkingu og þróun tækni og vísinda, sem olli
stöðugum hagvexti og gerði Evrópuríkjunum
kleift að tryggja þegnum sínum fordæmalausa
velferð. En hún hafði líka grafið undan
ákveðnum grunngildum evrópskrar
menningar, ekki síst kristinni trú, sem verið
hafði siðferðislegur grundvöllur evrópsks
samfélags. Þessum nýja veruleika hafði
Nietzsche lýst á dramatískan hátt sem „dauða
Guðs“. Að sinni gat þó ekkert skekið trú
Evrópubúa á sífellda framþróun. Sameining
Þýskalands á síðari hluta nítjándu aldar
raskaði hins vegar valdahlutföllum álfunnar
þó að utanríkisstefnu Bismarcks tækist að
halda friðinn. Eftir brotthvarf hans úr embætti
leiddi aukin spenna í samskiptum Evrópu-
ríkjanna og nýtt kerfi hernaðarbandalaga
hins vegar til stríðsátaka.
Ensk forsíða bókarinnar Age of Extremes, sem kom út í
íslenskri þýðingu undir heitinu Öld öfganna: Saga stuttu
tuttugustu aldarinnar, 1914-1991.