Þjóðmál - 01.03.2020, Blaðsíða 63
ÞJÓÐMÁL Vor 2020 61
séu að loka landinu, meðal annars fyrir
flugumferð. Keppendur séu hvattir til að taka
saman og undirbúa sig fyrir brottför.
Giri bregst fljótt við, kaupir flug sem fór 2½
klukkustund síðar, pakkar saman og tekur
leigubíl út á flugvöll þar sem hann tók
áætlunarflug til Amsterdam. FIDE útvegaði
leiguflug og svo fór að aðrir keppendur og
starfsmenn komust allir naumlega úr landi
áður en því var lokað, reyndar eftir alls konar
tafir og óþægindi.
FIDE sýndi mikinn dómgreindarskort með
mótshaldinu. Forystumenn þess sögðu að
ástandið hefði alls ekki verið svo slæmt við
upphaf mótsins en flestum var samt ljóst að
stefnt gæti í óefni. Keppendur, sem höfðu
barist um sætin átta, létu sig hafa að mæta til
leiks missáttir að einum undanskildum sem
mætti ekki.
Hvað gerist næst?
FIDE gaf það upp fyrir mót að ef til stöðvunar
kæmi myndi staðan halda sér og mótinu yrði
fram haldið við fyrsta tækifæri. Samþykktu
keppendur það á tæknifundi fyrir mót.
Radjabov er alls ekki sáttur við þá niðurstöðu
og vill að mótið byrji frá grunni enda hafi
kvörtun hans fyrir mót verið réttmæt. Margir
hafa tekið undir þá kröfu hans og meðal
annars hefur verið birt opið bréf frá aserskum
landsliðsmönnum. Fjórtándi heimsmeistarinn,
Vladimír Kramnik, gagnrýndi það mjög að
mótið hefði farið fram.
Aðrir telja það fráleitt og þar er fremstur í
flokki varamaðurinn og forystusauðurinn,
Maxime Vachier-Lagrave. Magnús Carlsen er
sömu skoðunar og gagnrýnir Radjabov fyrir
að hafa ekki tekið þátt. Ákvörðun hans lýsi
ekki miklum vilja til þess að verða heims-
meistari. Mörgum finnst heimsmeistarinn
þarna vera allt of harðorður.
Sjálfum finnst mér það líklegast að mótinu
verði fram haldið. Það liggur í mannlegu eðli
að margur á afar erfitt með að viðurkenna
mistök, eins og lægi í raun fyrir ef FIDE hæfi
mótið upp á nýtt.
Þess í stað er líklegt að Radjabov fái einhverjar
skaðabætur. Ekki er ólíklegt að hann fái
keppnis rétt í næsta áskorendamóti sem á
að fara fram árið 2022 – ef það mót færist
þá ekki til. Líklega hefur staðan á hinu stóra
alþjóðlega skákborði aldrei verið flóknari en
einmitt nú.
Höfundur er forseti Skáksambands Íslands.
Flóttinn hafinn - Anish Giri á leiðinni út á flugvöll. (Mynd: Lennart Ootes/FIDE)