Þjóðmál - 01.03.2020, Blaðsíða 90
88 ÞJÓÐMÁL Vor 2020
Mannréttindi voru þó ekki uppfinning
róttæklinganna frá 1968. Eins og sagn-
fræðingurinn Mark Mazower hefur lýst voru
þau að verulegu leyti viðbrögð eftirstríðs-
áranna við alræðisstjórnarfari hins sigraða
þjóðernissósíalisma, þar sem allt hafði þurft
að víkja gegn alltumlykjandi valdi ríkisins.
Hvað Vesturlönd varðaði voru þær áherslur
sem birtust meðal annars í stofnsáttmála og
mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu
þjóðanna og síðar í mannréttindasáttmála
Evrópu þannig leið til að undirstrika hefð-
bundna stjórnmálaarfleifð Vesturlanda, sem
byggðist á hugmyndinni um takmarkað vald,
réttarríkið og aðskilnaðinn milli ríkisins og
hins borgaralega samfélags. Mannréttindi
voru líka nýr merkimiði yfir réttindi
þjóðernis minnihluta, sem Þjóðabandalagi
millistríðs áranna hafði verið falið að vernda.
Megintilgangur mannréttinda var þannig að
endurreisa frjálslynda stjórnmálamenningu
Vesturlanda, byggða á eldri hefð náttúru-
réttarins.
Í kjölfar stúdentabyltingarinnar fór mann-
réttindaorðræðan hins vegar að blandast
inn í þá almennu og varanlegu uppreisn
gegn yfirvaldi og ríkjandi þjóðskipulagi sem
einkenndi sjöunda og áttunda áratuginn.
Þær urðu að eins konar áróðurstæki í „ róttæku
menningarbyltingunni“, beint ýmist gegn
markaðshagkerfinu og hvers kyns ójafnri
skiptingu gæða; frjálslyndu þjóðskipulagi,
í þágu „fórnarlambafræða“ akademíunnar
og þeirra aðgerða sem þau fræði töldu
nauðsynleg til að ná fram „algjöru jafnrétti;“
en þó mest af öllu í þágu ótakmarkaðs
sjálfsforræðis einstaklingsins og leitar hans
að algjörri frelsun og ósvikinni sjálfstjáningu
– eða hugmyndarinnar um „jákvætt frelsi“.
Í meðförum róttæklinga vildi uppruni
mannréttindahugtaksins því gleymast og
það breytti að miklu leyti um merkingu.
Mannréttindi urðu eiginlega bara annað orð
yfir hugmyndafræði stúdentabyltingarinnar.
Þessi breytta áhersla hafði þó ákveðna
hugmyndafræðilega erfiðleika í för með
sér. Þannig taldi stúdentabyltingin allt vald
jafngilda kúgun, en hún áttaði sig ekki á því
að í hobbesískum heimi eru mannréttindi
þýðingarlaus, enda ekkert skipulagt vald til
að veita þeim gildi. Það er aðeins eftir að hið
pólitíska samfélag verður til að hægt er að
tala um mannréttindi, því aðeins vald – tak-
markað vald – getur tryggt þau. Og það var
einmitt á Vesturlöndum, í samspili kristinnar
trúar, grískrar heimspeki og rómverskra laga
– í Jerúsalem, Aþenu og Róm; í átökunum
milli andlegs og veraldlegs valds; í tilvist
fornrar lagahefðar, sem höfðingjar Vestur-
Evrópu töldu sig bundna af; sem slíkt vald
þróaðist og mannréttindi urðu til. Þau eru
raunar eitt helsta pólitíska afrek vestrænnar
siðmenningar, þeirrar hinnar sömu og sumir
háværustu talsmanna þeirra í nútímanum
reyna hvað harðast að jaðarsetja. Þannig hafa
mannréttindi sjaldan þrifist utan Vesturlanda:
ríki múslima hafa um þau allt aðra hugmynd,
enda viðurkennir íslam alls ekki regluna um
takmarkað vald, sem er þó grunnforsenda
þess að mannréttindi í vestrænum skilningi
orðsins geti þrifist; ekki frekar en Kína
keisara veldisins eða kommúnistaflokksins.
Takmarkað vald byggir á grunnreglu stjórn-
málamenningar Vesturlanda, sem er meiri-
hlutaræði ásamt vernd ákveðinna réttinda
minnihlutans. Það var í krafti þeirrar reglu sem
hið frjálsa og fullvalda pólitíska samfélag
bjó til mannréttindahugtakið. Stúdenta-
byltingin krafðist hins vegar óskoraðs sjálfs-
forræðis einstaklingsins og lagðist gegn hvers
kyns „menningarlegri innrætingu“ – og þar
með hvers konar miðlun uppsafnaðrar visku í
formi gilda og hefða vestrænnar menningar,
sem róttæklingar litu hvort sem er á sem
spillta af langri sögu undirokunar, fordóma
og mismununar. Í stað þess að líta svo á að
besta leiðin til að vernda mannréttindi væri
að hlúa að þeirri klassísku stjórnmálahefð og
menningararfi Vesturlanda sem gerði mann-
réttindi möguleg yrði þvert á móti að jaðarsetja
þá menningu í nafni menningarrelatívisma og
abstrakt réttinda. Rökrétt afleiðing var sú að
meirihlutavaldið þyrfti að víkja fyrir sérhverjum
eins manns minnihluta.