Þjóðmál - 01.03.2020, Side 44

Þjóðmál - 01.03.2020, Side 44
42 ÞJÓÐMÁL Vor 2020 Sterkar konur í Sjálfstæðisflokknum Þá að Þórdísi Kolbrúnu sjálfri, sem er alin upp á Akranesi. Það má segja að ferill hennar hafi verið nokkur hraður miðað við það sem áður þekkist. Hún var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins árið 2013, aðstoðarmaður innanríkisráðherra frá árslokum 2014 og var kjörin á þing haustið 2016 eftir að hafa náð 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NV- kjördæmi. Hún varð síðan sem fyrr segir ráðherra þegar ný ríkisstjórn tók til starfa í byrjun árs 2017. Þórdís Kolbrún var jafnframt kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins í mars 2018. „Ég fór ekki í pólitík af því að ég vildi að öllum líkaði vel við mig. Ég hef alltaf verið opin með það fyrir hvað ég stend og á hvað ég trúi og hvernig tegund af stjórnmálamanni ég er. Ég get ekki reynt að vera einhver önnur en ég er. Ég hef tekist á við verkefni mín sem stjórnmálamaður eins og ég geri með önnur verkefni og ákvarðanir í lífinu,“ segir Þórdís Kolbrún þegar hún er beðin um að lýsa sjálfri sér sem stjórnmálamanni. Næstu alþingiskosningar fara að öllu óbreyttu fram á næsta ári, þótt ekki liggi enn fyrir hvort þær fari fram að vori eða hausti. „Það á eftir að ákveða hvernig raðað verður á lista og ég veit ekki hversu mikil endurnýjun mun eiga sér stað í þingflokki Sjálfstæðis- flokksins,“ segir Þórdís Kolbrún spurð um væntanlega endurnýjun flokksins. „Einstaklingar skipta máli og við viljum senda sterkasta mögulega liðið út á völlinn. Ég er þeirrar skoðunar að liðið sem þú setur út á völlinn, sem á að vera í forsvari fyrir þá breiðfylkingu sem Sjálfstæðisflokkurinn er, þurfi að vera fjölbreytt. Þá er ég ekki bara að vísa til kyns og aldurs, heldur líka bakgrunns, reynslu og áherslna. Það er enginn meiri eða minni sjálfstæðismaður en hver annar innan flokksins þótt það séu ólíkar skoðanir á ýmsum málum. Verst geymda leyndarmálið um velgengni flokksins til þessa er einmitt hversu margar ólíkar skoðanir eru innan hans en menn sameinast þó um ákveðin grunngildi og fylgja þeim eftir. Það eru gerðar meiri kröfur en áður um fjölbreytni innan stjórnmálaflokka og við þurfum að svara þeim kröfum.“ Mörgum er tíðrætt um stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins. Það má þó segja að núverandi formaður, Bjarni Benediktsson, hafi farið óhefðbundna leið þegar hann, í upphafi árs 2017, skipaði Þórdísi Kolbrúnu ráðherra ásamt Sigríði Andersen og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur á síðasta ári. Engin þeirra er oddviti í sínu kjördæmi. „Sú ákvörðun hans var ekki óumdeild og ég er auðvitað ekki hlutlaus þegar kemur að því að leggja mat á það,“ segir Þórdís Kolbrún spurð um þetta. „Mér fannst hann þó sýna kjark með því og hann braut upp hið hefðbundna og þekkta form. Þessar ákvarðanir skiptu máli og breyta sögu Sjálfstæðisflokksins. Bjarni hefur nú skipað fleiri konur sem ráðherra en allir aðrir formenn flokksins samanlagt. Til að gæta sanngirni í sögulegu samhengi þarf þó að hafa í huga að konum í stjórnmálum hefur fjölgað.“ Við höfum áður séð sterkar konur í forystu Sjálfstæðisflokksins en sumir hafa þó haldið því fram að hann sé einnar konu flokkur – í þeirri merkingu að það sé aðeins pláss fyrir eina sterka konu í einu. Er það rétt? „Sú gagnrýni hefur átt rétt á sér að einhverju leyti en ekki að öllu,“ segir Þórdís Kolbrún. „Ég vona þó að þeir tímar séu liðnir, því í þeirri breiðfylkingu sem flokkurinn er þá er nægt pláss fyrir konur í hvers kyns forystu- hlutverkum innan flokksins. Það eru sterkar konur í flokknum og ég vil hafa sterkar konur í kringum mig og í forystu Sjálfstæðisflokksins, óháð því hvort ég er þar sjálf eða ekki. Þær konur sem voru í forystu á undan mér voru varða á ákveðinni vegferð og ég vona að ég sé einhvers konar varða líka. Það koma fleiri sterkar konur með mér og á eftir mér.“

x

Þjóðmál

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.