Þjóðmál - 01.03.2020, Side 72

Þjóðmál - 01.03.2020, Side 72
70 ÞJÓÐMÁL Vor 2020 Pétur hefur tvisvar sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir besta hljóðið í kvikmynd. Fyrsta tilnefning hans var fyrir Batman Forever, sem kom út árið 1995. Var þetta þriðja Batman-myndin sem kom út á sex ára tímabili og varð þessi mynd gríðarlega vinsæl eins og hinar myndirnar á undan. Næsta tilnefning Péturs var svo fyrir The Aviator, sem kom út árið 2004 og var í leikstjórn Martin Scorsese. Fjallar myndin um upphafsár viðskiptajöfursins, leikstjórans og flugmannsins Howard Hughes sem Leonardo DiCaprio lék svo eftirminnilega í myndinni. Næstu Íslendingar til að vera tilnefnd voru Björk Guðmundsdóttir og Sigurjón Birgir Sigurðsson, Sjón. Björk fæddist árið 1965 í Reykjavík og hóf tónlistarferil 11 ára. Hún vakti fyrst athygli í hljómsveitinni KUKL, sem síðan þróaðist út í hljómsveitina Sykurmolarnir. Hún hóf sólóferil árið 1992 og varð heimsfræg eftir það. Sjón fæddist í Reykjavík árið 1962. Hann er skáld og rithöfundur. Ásamt Björk samdi hann tónlistina í kvikmyndinni Dancer in the Dark sem kom út árið 2000 en Björk lék einnig aðalhlutverkið í þeirri mynd. Myndin fjallar um dagdreymandi innflytjanda sem starfar í verksmiðju í Bandaríkjunum. Hún þjáist af augnhrörnunarsjúkdómi og er að spara fyrir kostnaði við aðgerð til að koma í veg fyrir að sonur hennar verði fyrir sömu örlögum. Kvikmyndin var tilnefnd til margra alþjóðlegra verðlauna og m.a. var Björk tilnefnd sem besta leikkonan í aðalhlutverki á Golden Globe-verðlaunahátíðinni. Björk og Sjón voru tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokknum besta frumsamda lagið fyrir lagið „I‘ve Seen It All“. Björk samdi tónlistina og leikstjórinn Lars von Trier og Sjón sömdu textann. Önnur íslenska myndin á eftir Börn náttúrunnar til að vera tilnefnd til Óskarsverðlauna var stuttmyndin Síðasti bærinn, sem kom út árið 2005. Það voru Rúnar Rúnarsson og Þórir S. Sigurjónsson sem framleiddu þá mynd. Rúnar fæddist árið 1977 í Reykjavík og er leikstjóri og framleiðandi en Þórir fæddist árið 1973 í Reykjavík og er framleiðandi og leikari. Síðasti bærinn fjallar um bónda á eina bænum í afskekktum dal sem ekki er farinn í eyði. Hann hefur búið þar alla ævi, alið upp fjölskyldu og hugað að búskapnum. Hann hefur engan áhuga á að bregða búi og flytja á elliheimili, sem börn hans hvetja hann þó til að gera. Var þessi mynd tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin. Að lokum skal nefna tónsmiðinn Jóhann Jóhannsson. Hann fæddist árið 1969 í Reykjavík og lést árið 2018 í Berlín. Jóhann byrjaði árið 2000 að vinna við tónlist í kvikmyndum en samdi einnig tónlist fyrir leiksýningar, dansverk og sjónvarp. Tvö ár í röð var hann tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir bestu tónlistina í kvikmynd. Fyrsta tilnefning hans var fyrir The Theory of Every- thing, sem kom út árið 2014 og fjallar um samband eðlisfræðingsins Stephen Hawking og eiginkonu hans. Seinni tilnefningin kom árið 2015 fyrir kvikmyndina Sicario, sem fjallar um FBI-fulltrúa sem er ráðinn til að aðstoða við stríðið gegn fíkniefnum á landa- mærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Það hefur alltaf þótt mikill heiður að vera tilnefndur til Óskarsverðlauna og nú eru 37 ár síðan Íslendingur var í fyrsta sinn tilnefndur. En þökk sé Hildi getum við loksins sagt að „við“ höfum unnið Óskarsverðlaun. Höfundur er sagnfræðingur.

x

Þjóðmál

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.