Þjóðmál - 01.03.2020, Page 83

Þjóðmál - 01.03.2020, Page 83
ÞJÓÐMÁL Vor 2020 81 Kenning um að réttlæti sé eins og samkomu- lag skynsamra og hagsýnna jafningja sem gæta aðeins að eign hag getur líklega ekki skýrt skyldur okkar við komandi kynslóðir. Mikilsmetnir siðfræðingar hafa einnig rökstutt að forsendur líkar þeim sem Rawls gefur sér dugi skammt til að skýra muninn á réttlæti og ranglæti í samskiptum við aðra en jafningja. Þarna fer Martha Nussbaum fremst í flokki, en hún rökstyður að réttlæti taki til víðara sviðs en rúmast innan hugtakaramma Rawls og ræðir meðal annars um réttlæti og ranglæti í samskiptum okkar við dýr, sem auðvitað geta ekki átt aðild að samkomulagi af því tagi sem Rawls ímyndaði sér að menn hlytu að ná ef þeir kæmu saman undir fávísis- feldi (Nussbaum, 2006). Sjálfum þykir mér trúlegt að margir helstu annmarkarnir á kenningu Rawls séu sameiginlegir allri siðfræði sem reynir að leiða rétt og rangt af sannindum um hags- muni sem eru óháðir siðferðilegum gildum. Þræðir lífsins mynda þéttari flóka en svo að hægt sé að greiða sundur staðreyndir og gildi og skýra réttlæti sem afleiðingu af sannindum um hagsmuni sem ekki fela í sér neitt gildis- mat. Sumir mikilvægustu hagsmunir okkar eru siðferðilegir. Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman. Til þess að þrífast almenni lega þurfum við líka ást og virðingu, frelsi og jöfnuð, og ekkert af þessu er til utan við heim siðferðilegra gilda. Hér er ekki rúm til að skýra þetta svo vel sé. Ég læt því duga að nefna sem dæmi að eins og Kristján Kristjánsson (1996) hefur rökstutt með sannfærandi hætti verður frelsi ekki skilgreint nema nefna ábyrgð og réttmæti. Frelsi eins manns er ekki skert nema aðrir beri siðferðilega ábyrgð á hindrun sem hann verður fyrir: Björg geta verið farartálmar en þau skerða ekki frelsi okkar þótt þau liggi vítt og breitt af náttúrulegum ástæðum – en ef ég ber ábyrgð á að lagður sé stein í götu annars manns, svo hann komist ekki leiðar sinnar, þá skerði ég frelsi hans. Ef grunur minn er réttur hefur stór hluti af þeirri rökræðu um stjórnspeki sem Forrester segir frá í bók sinni mótast af tilraun Rawls til að gera hið ómögulega, nefnilega að skilgreina réttlæti án vísunar í siðferðileg gildi. Bókin heitir Í skugga réttlætisins (In the Shadow of Justice) því að mati höfundar hefur öll sú umræða sem frá segir farið fram í skugganum af kenningu Rawls. Forrester gerir samt ekki lítið úr þessari kenningu – viðurkennir að hún sé með helstu stórvirkjum í heimspeki seinni tíma – en gefur samt í skyn að nú sé tímabært að færa sig úr skugganum og sjá réttlætið í nýju ljósi. Höfundur er heimspekingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Rit Atli Harðarson. (2015). Alþjóðleg mannréttindi. Skírnir, 189(2), 444–473. Forrester, Katarina. (2019). In the Shadow of Justice: Postwar Liberalism and the Remaking of Political Philosophy. Princeton, NJ: Princeton University Press. Kristján Kristjánsson. (1996). Social Freedom: The Responsi- bility View. Cambridge: Cambridge University Press. Nozick, Robert. (1974). Anarchy, State, and Utopia. New York, NY: Basic Books. Nussbaum, Martha C. (2006). Frontiers of Justice: Disability, Nationality, Species Membership (The Tanner Lectures on Human Values). Cambridge, MA: Belknap Press. Rawls, John. (1971). A Theory of Justice. Cambridge, MA: The Belknap Press. Williams, Bernard. (1982). Moral Luck. Cambridge: Cambridge University Press. Williams, Bernard. (2015). Essays and Reviews: 1959–2002. Princeton, NJ: Princeton University Press.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.