Strandapósturinn - 01.06.1981, Side 97
Nokkuð var skuggsýnt í baðstofunni en þó sá ég móta fyrir
konu, stórvaxinni og góðlegri. Hún spurði mig nafns og bauð
mig velkominn.
Ég sagði frá erindi mínu og tók hún því vel en sagði að ég þægi
nú fyrst góðgerðir. Hún kvaðst vera ein í bænum því að bóndi
sinn væri í smiðju og annað heimilisfólk á engjum. Bar hún mér
síðan mjólk og kúfaðan disk af brauði. Borðaði ég þar nægju
mína og vel það.
Eftir máltíðina fór hún með mig út í smiðju til bónda síns.
Vissi ég þá að konan hét Helga Sigurðardóttir og bóndi hennar
Þorsteinn Helgason. Eigi var hann mér síðri í viðmóti en konan
og voru skeifurnar auðfengnar. Hélt ég síðan heim þakklátur
góðu fólki.
Þau Þorsteinn og Helga bjuggu í Hrafnadal í fjörutíu ár. Áttu
þau sjö börn, en þar af voru fjögur Magnús, Sigurður, Ragn-
hildur og Guðbjörg ávallt heima. Urðu þau systkin mér vel
kunnug og var jafnan gott til þeirra að koma.
Nú eru þau Hrafnadalshjón og börn þeirra, sem heima voru
löngu látin, en jörðin orðin sumarbústaðaland reykvískra pípu-
lagningameistara.
Kvæði Stefáns frá Hvítadal „Fornar dyggðir“, mun lengi
halda uppi nöfnum jaeirra Hrafnadalshjóna, en Helga var hálf-
systir Stefáns.
Helga hjúkraði Þorsteini manni sínum í banalegu hans, en
þegar að honum látnum sagði hún sínu lífsstarfi lokið, kvaddi
heimilisfólk sitt og lagðist í rúmið og lést fáum dögum seinna.
Voru þau Þorsteinn grafin í sömu gröf að Prestsbakka.
VI.
Bakkasel
Þegar ég var 13 ára var ég sendur í fyrsta og síðasta sinn í
göngur. Fjallkóngur var þá Guðjón Guðmundsson á Ljótunn-
arstöðum, en gististaðurinn þaðan sem leitarmenn skyldi leggja
upp að morgni, var Bakkasel. Þangað kom ég því kvöldið áður en
göngur áttu að hefjast eins og aðrir leitarmenn.
95