Strandapósturinn - 01.06.1981, Side 112
Ieysur með öllu, ýmsir voru farnir að skera kýr og annan fénað af
heyjum hér um sveitir og þar eð eigi var á mörgum stöðum hægt
annað en kvelja kýrnar og sumstaðar að farga þeim með öllu
leiddi eðlilega af því bjargarleysi hjá mörgum. Eldiviðarskortur
var og almennur því hvorki hann né annað varð þurrkað hér á
næstliðnu sumri.
Afleiðingarnar af hinu afarmikla norðanveðri 30. jan. urðu
hinar mestu. Ég drap lítið eitt á nokkuð af þeim síðast, en seinna
fréttist fleira. Þannig er sagt að við Isafjarðardjúp hafi alls fokið
og brotið 26 för stærri og smærri, tvö útihús úr timbri gjörtók þar
og burtu. Núpskirkju í Dýrafirði tók á sjó út og sást lítið eða
ekkert eftir, hún var nýlega reist og úr viði. Nokkur skip og
nokkuð af timbri, borðvið og trjám tók burt á norðurströnd
Amarfjarðar, 13 tylftir af borðum og tvö skip á einum bæ, skip
og 15 tré á öðrum, bátur og margar árar á hinum þriðja o.s.frv. Á
margar jarðir þar fauk svo mikill sandur og malargrjót að þær
eru taldar heilar og hálfar eyddar. Á Sauðlauksdalstún í
Patreksfirði og engjar og úthaga kom og mjög mikill sandur, en
slíkt þykir ekki í frásögur færandi, því þar er það árleg venja.
Heymiðju tók burt á bæ einum á Barðaströnd en endarnir stóðu
báðir eftir svo sem skornir væru af bútarnir.
Með aprílmánuði skipti um veðráttufarið, kom þá hlýviðri og
þíða af suðri með hægri leysingu er síðan hefur stöðugt haldist,
snjóinn hefur leyst furðu fljótt svo mikill sem hann var þá orðinn
og er að kalla allur horfinn af láglendi nema úr djúpum lautum
og giljum, svellin verða seigari fyrir, þó leysa þau einnig óðum,
en skepnur voru sumstaðar orðnar svo aðþrengdar að þær eru að
smá velta út af.
110