Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2021, Qupperneq 43
segja því í raun og veru lítið um hlutfallstíðni raðanna sem hér eru til um -
ræðu. Hjá Haugan (2000:173) kemur fram að í dæmasafni hans hafi níu
af 300 dæmum um nafnhátt með gefa verið með röðinni ba-óa, þar af sjö
dæmi þar sem andlögin fóru á eftir sögninni (sa-röð) og tvö þar sem þau
fóru á undan henni (as-röð). Hjá Davis (2006:87) er því haldið fram að
röðin ba-óa sé algengasta röðin í forníslensku en ekki er ljóst á hverju sú
staðhæfing byggir.9
Bent hefur verið á að tíðni tveggja andlaga formgerðarinnar í íslensku
hafi tekið breytingum í tímans rás (sjá t.d. Jóhönnu Barðdal 2007:21).
Þetta kemur einnig skýrt fram í IcePaHC ef miðað er við tíðni sem hlut-
fall af heildarorðafjölda.10 Hafa ber í huga í þessu sambandi að tveggja
andlaga formgerðir eru tiltölulega fátíðar í textum almennt séð og að mikið
textamagn þarf til þess að hægt sé að rannsaka þær (sjá t.d. Coussé 2007).
Þá kann tveggja andlaga formgerðin að vera í samkeppni við samsvarandi
formgerð með forsetningarlið (sjá næsta kafla) en það gæti þá skýrt lægri
tíðni ef forsetningarformgerðir eru í vexti, nema þær séu flokkaðar sér-
staklega með dæmum um tvö andlög. Þetta þyrfti að kanna nánar í ís lensku.
Annað atriði sem flækir nokkuð heildarmyndina af þróuninni í
íslensku er að á forníslensku skeiði er mikið um að beina andlagið fari á
undan sögn í fallhætti en óbeina andlagið á eftir því, þ.e. blönduð/t3-röð
eins og í (10) (sbr. Þorbjörgu Hróarsdóttur 2000:210, sjá einnig Höskuld
Þráinsson 1997):
(10) ... að hann hefir líf gefið barninu
(sbr. Eirík Rögnvaldsson 1994–1995:34, sjá tilv. þar)
Sögulegar breytingar á orðaröð 43
gagnast ekki til þess að kanna röð andlags m.t.t. sagnarinnar, m.a. vegna hömlu um sögn í
öðru sæti. Í ofanálag er æskilegt að hafa atviksliði með til þess að komast megi nær form-
gerðarlegri stöðu andlaganna og fleira í þessum dúr. Þetta er hins vegar ekki endilega æski-
legt þegar safna á dæmum um innbyrðis röð andlaganna nema dæmasafnið sé þeim mun
stærra svo hægt sé að takmarka safnið t.d. við heila nafnliði og ákveðið setningafræðilegt
umhverfi.
9 Davis vísar á þessum stað á skrif Barnes en tilvísun vantar í heimildaskrá. Sennilega
er átt við inngangsmálfræði Barnes að forníslensku. Í þriðju, endurskoðuðu útgáfu hennar
(Barnes 2008) er a.m.k. enga slíka staðhæfingu að finna. Þvert á móti segir Barnes
(2008:224) að röðin sé breytileg en að „tendency for the indirect to precede the direct object
is however noticeable.“
10 Ef tíðnin er umreiknuð sem hlutfall af orðafjölda á hverri öld fellur tíðni tveggja
andlaga skv. mínu gagnasafni úr 1,7‰ á 12. öld næstu aldir í 1,3‰, 1,1‰ og 0,8‰. Síðari
aldir og fram til nútímans flöktir hlutfallið nokkuð, á bilinu 0,28–0,8‰. Á 16. öld er hlut-
fallið 0,4‰ og nær 0,5‰ á 19. öld. Þetta kann þó að einhverju leyti að skýrast af ólíkum
textategundum. Lægst er tíðnin svo á 20. og 21. öld eða 0,33‰ og 0,28‰.