Saga - 2020, Side 32
Hið sanna er heildin. Heildin er aftur á móti ekkert annað en eðli sem
fullkomnar sig með framvindu sinni. Um hið algjöra er það að segja að
í eðli sínu er það útkoma, það er ekki það sem það er í sannleika fyrr
en í lokin; og í þessu felst náttúra þess, að vera veruleiki, gerandi eða
sjálfsverðandi.4
Þessi orð Hegels eru til marks um það hvernig hin sögulega vídd,
framvindan, gengur í gegnum hugsun hans og þar með, í stíl við
forsendur hans sjálfs, um það hvernig hugsunin gengur í gegnum
söguna og finnur sér þar farveg. Jafnframt blasir hér við hvernig
Hegel leit á sannleikann sem sögulega skilyrtan eða taldi með
öðrum orðum að sannleikurinn sé sú heild „sem fullkomnar sig í
framvindu sinni“, tekur á sig mynd í rás sögunnar og verður ekki
fyllilega að því sem hann er „fyrr en í lokin“. Sannleikurinn er til, á
hverjum tíma tekur hann á sig tilteknar myndir, en allur sannleikur-
inn, „hið algjöra“ sem slíkt án allra takmarkana, kemur ekki í ljós
fyrr en allt er um garð gengið.
Að þessu sögðu og svo horfið sé aftur að viðfangsefni þessa
greinarstúfs er eðlilegt að spyrja: Hvað með spurninguna um sögu-
lega tíma? Hvernig á að skilja hana í ljósi hugmyndar Hegels um
framvindu sannleikans, heildarinnar eða hins algjöra? Sé málum í
reynd þannig háttað að sannleikurinn sé stöðugt að birtast, eru þá
allar birtingar hans jafngildar og öll framvinda jafngóð? Hvernig er
þá hægt að fóta sig í sögunni yfirhöfuð, greina eitt frá öðru, hið góða
frá hinu slæma, hið sögulega frá hinu yfirborðskennda? Er það allt
jafngilt og jafnrétthátt — jafnsögulegt og þar af leiðandi jafnfjarri því
að vera sögulegt? Til að gera langa sögu stutta er ljóst að Hegel sjálf-
ur vildi forðast að ályktanir í þeim anda sem hér er brugðið upp
væru dregnar. Í formála Fyrirbærafræðinnar kemur sá vilji hans til
dæmis fram í því þegar hann tekur fornvin sinn Schelling til bæna
fyrir að hafa sett fram heimspeki þar sem ómögulegt er að greina
eitt frá öðru — heimspeki sem gerir þegar upp er staðið „nóttina þar
sem allar kýr eru svartar … að sínum algjöra veruleika“.5 En hver er
þá leið Hegels til að rata í þessari nótt, hvaða haldreipi hefur hann,
hverjar eru hans hvítu (og þá kannski heilögu) kýr? Þegar leitað er
svara við þeirri spurningu má benda á hvernig hann tekur af öll tví-
mæli um að ætlun hans sé að draga upp þá mynd af veruleikanum
álitamál30
4 G. W. F. Hegel, Formáli að Fyrirbærafræði andans, Skúli Pálsson þýddi (Reykjavík:
Hið íslenska bókmenntafélag, 2019), 57.
5 Sama heimild, 56.