Saga - 2020, Síða 128
er að sagan sé ekki óumbreytanlegur þekkingarmassi heldur sam -
sett úr túlkunum ólíkra hópa á ólíkum tímum og stöðum. Hana er
hægt að kynna sér og læra um með því að rýna í heimildir, beita
mismunandi sjónarhornum, skoða orsakasamhengi, gefa gaum að
bæði breytingum og samfellu og fleira mætti nefna. Þegar þessar
leiðir eru farnar til að komast að niðurstöðu um söguleg fyrirbæri
kallast það söguleg rökfærsla. Hér er í raun verið að vísa til vinnu -
aðferða sagnfræðinga sem hafa verið færðar markvisst inn í skóla-
stofuna í okkar heimshluta, að minnsta kosti síðustu fimmtíu árin.5
Ræturnar ná ennþá lengra aftur, söguspekingarnir Croce á Ítalíu
(d. 1952) og Collingwood í Bretlandi (d. 1943) lögðu til dæmis báðir
höfuðáherslu á hlutverk sagnfræðingsins sem túlkanda.
En hvers vegna er eftirsóknarvert að efla sögulega hugsun nem-
enda í stað þess að færa þeim í stuttu máli afrakstur sögulegrar
hugsunar einhverra annarra? Svarið liggur í virkni nemenda. Þegar
þeir fá sjálfir tækifæri til að vinna með sögulegan vitnisburð, nota
hann til að komast að niðurstöðu og sjá að niðurstöðurnar geta jafn-
vel verið fleiri en ein þó að alls heiðarleika sé gætt eru mun meiri
líkur á að nám eigi sér stað. Athugið að hér eru kennsluaðferðir látn-
ar liggja á milli hluta, ótal leiðir eru færar við kennslu sögulegrar
hugsunar.6 Grundvallarhugmyndafræðin er hugsmíðahyggja (e. con -
structivism) sem skýrir hvernig nám fer fram með því að tengja nýja
þekkingu við þá þekkingu sem fyrir er sem og persónulega reynslu.
Merkingarbært nám byggir á tengingu við raunveruleika nemenda.7
Nefna má tvö áhugaverð og aðgengileg dæmi um hvernig hægt
er að fara að við sögukennslu í þessum anda. Annars vegar er kanad -
íska verkefnið The Historical Thinking Project en sagnfræðingurinn
súsanna margrét gestsdóttir126
5 Nefna má The Schools Council History Project í Englandi upp úr 1970, skrif
Jörns Rüsen og fleiri Þjóðverja um söguvitund (e. historical consciousness) og
margvíslegar tilraunir í sögukennslu í Bandaríkjunum síðan á sjöunda áratug
síðustu aldar, sjá t.d. Peter Seixas, „A model of historical thinking,“ Educational
Philosophy and Theory 49, nr. 6 (2017): 593–605.
6 Sam Wineburg og Suzanne M. Wilson, „Models of wisdom in the teaching of
history,“ í Sam Wineburg, Historical Thinking and Other Unnatural Acts. Charting
the Future of Teaching the Past (Philadelphia: Temple University Press, 2001);
Súsanna Margrét Gestsdóttir, Carla van Boxtel og Jannet van Drie, „Teaching
historical thinking and reasoning: Construction of an Observation Instrument,“
British Educational Research Journal 44, nr. 6 (2018): 960–981.
7 Sjá t.d. skrif menntunarfræðinganna Jeans Piaget, Levs Vygotsky og Jeromes
Bruner.