Mímir - 01.06.2005, Page 59
og Joan var miklu lægra í nýju setningagerðinni
með geranda í forsetningarlið (sjá 4b. en í öðrum
setningum með nýju setningagerðinni þar sem
gerandi er ekki hafður með í forsetningarlið (sjá t.d.
setninguna 4c. Til samanburðar voru venjulegar
þolmyndarsetningar með geranda í forsetningarlið
prófaðar (sjá setninguna 4a. Eins og við er að búast
samþykkja málhafar geranda í forsetningarlið
í slíkum setningum. Sigríði og Joan þótti að
þetta þyrfti að kanna nánar og því voru nokkur
lágmarkspör höfð með í minni athugun til að athuga
þetta kerfisbundið. Aftur verður vikið að þessu
atriði í niðurstöðum mínum í kafla 4.2.3 og það
borið saman við þær niðurstöður sem ég fékk.
Niðurstöður Sigríðar og Joan benda til, rétt
eins og niðurstöður frumathugunarinnar, að þessi
málbreyting sé lengra komin á landsbyggðinni en í
Reykjavik. Munurinn á skólunum í Reykjavík vestan
Elliðaáa og skólum í úthverfum Reykjavíkur og á
landsbyggðinni var þó það mikill að fleiri þættir
hljóta að spila þar inn í. Menntun foreldra virðist
hafa áhrif á mat unglinga á nýju setningagerðinni.
Hlutfall jákvæðra svara var lægra eftir því sem
menntun foreldra var meiri í öllum landshlutum
og var munurinn tölfræðilega marktækur. Sömu
niðurstöður fékk Ásta Svavarsdóttir (1982) í könnun
sinni á þágufallssýki, þ.e. þágufallssýki barna
reyndist minni eftir því sem menntun foreldra var
meiri. En þó að menntun foreldra í Reykjavík vestan
Elliðaáa sé hlutfallslega meiri en menntun annarra
foreldra á landinu skýrir það ekki að öllu leyti hvers
vegna sá hópur unglinga sem býr á þessu svæði
sker sig úr í notkun nýju setningagerðarinnar. Meðal
þeirra unglinga í Reykjavík vestan Elliðaáa sem
samþykkja síður nýju setningagerðina en unglingar
annars staðar á landinu eru unglingar sem eiga
foreldra með litla menntun. Hlutfall jákvæðra svara
á þessu svæði er sem sagt lægra hjá öllum, óháð
menntun foreldra. Það eru því augljóslega fleiri
þættir en menntun foreldra sem spila þarna inn í.
Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling (2001a,
bls. 144-145) telja að námsárangur og hæfni til að
taka próf geti verið einn af þessum þáttum því að
á meðal skólanna í Reykjavík vestan Elliðaáa eru
þeir skólar sem voru með hæsta meðaleinkunn á
samræmdum prófum vorið 2000.
3.3 Könnun Stefaníu Björnsdóttur
Stefanía Björnsdóttir skrifaði ritgerð í
setningafræði-námskeiði hjá Jóhannesi Gísla
Jónssyni aðjúnkt vorið 2002 þar sem hún lagði
stuttan spurningalista um nýju setningagerðina
fyrir 3., 5. og 7. bekk í skóla í Reykjavík sem
staðsettur er vestan Elliðaáa. Stefanía notaði aðra
aðferð í könnun sinni en notuð hefur verið í fyrri
rannsóknum. Hver liður hófst á stuttri frásögn sem
var aðdragandi að setningunum sem börnin áttu
að merkja við. Á eftir hverri frásögn komu tvær
setningar sem þau áttu að velja á milli, önnur í
þolmynd en hin með nýju setningagerðinni.
Helstu niðurstöður voru þær að u.þ.b. 25-
30% barna í þessum bekkjum valdi nýju
setningagerðina. Ef þetta val endurspeglar notkun
nýju setningagerðarinnar þá virðist notkunin vera
mest hjá yngsta hópnum, u.þ.b. 36%, og minnst hjá
elsta hópnum, u.þ.b. 17%. Þó kom fyrir í sumum
setningum að fleiri völdu nýju setningagerðina
í 5. bekk en 3. bekk. Munur á notkun nýju
setningagerðarinnar eftir kynjum var lítill í 3. og 5.
bekk en í 7. bekk virtust stelpur síður nota hana en
strákar, þótt munurinn hafi ekki verið mikill. Þessi
munur gæti stafað af því að stelpur fara frekar eftir
leiðréttingum og fylgja reglum um rétt mál (Trudgill
1983, bls. 85-96). Niðurstöðurnar sýndu einnig að
börnin nota bæði nýju setningagerðina og þolmynd.
Sömu börn merktu við þolmynd í sumum dæmum
en nýju setningagerðina í öðrum. Hlutfall þeirra
sem notar nýju setningagerðina minnkar þó í réttu
hlutfalli við aldur. Munurinn tengist e.t.v. því að
börn verði meðvitaðri um að nýja setningagerðin er
„rangt mál“ þegar þau eldast.
4. Niðurstöður athugunar
4.1 Framkvæmd athugunarinnar
Ég lagði spurningalista fyrir 85 nemendur í fjórum
bekkjum í tveim skólum, einn 7. og einn 9. bekk í
hvorum skóla. Skólarnir tveir voru valdir með tilliti
til þeirra niðurstaðna, sem komu fram í rannsókn
Sigríðar og Joan, sem sýndu að skólar í Reykjavík
vestan Elliðaáa höfðu lægra hlutfall jákvæðra
svara en aðrir skólar á landinu. Þvi var valinn einn
skóli í Reykjavík vestan Elliðaáa sem staðsettur
er miðsvæðis í Reykjavík og einn skóli í Reykjavík
austan Elliðaáa sem staðsettur er í Breiðholti, til
þess að sjá hvort sami munur komi fram og í fyrri
rannsókn. Til hagræðingar verða þessir skólar hér
eftir nefndir skóli AE (austan Elliðaáa) og skóli VE
(vestan Elliðaáa). Einnig voru 10 fullorðnir fengnir til
að svara spumingalistanum til að hafa samanburð
við unglingana.
Spurningablaðið sem notað var í þessari
athugun er hannað af Sigríði Sigurjónsdóttur
og Joan Maling. Það er eins uppbyggt og
spurningablaðið sem notað var í þeirra rannsókn. Á
spurningablaðinu var 61 setning í handahófskenndri
röð, þar af voru 10 viðmiðunarsetningar, tækar og
ótækar, sem m.a. voru notaðar til að meta hvort
svör nemendanna væru marktæk. Nemendurnir
voru beðnir að merkja við einn af tveim möguleikum
fyrir hverja setningu, líkt og í rannsókn Sigríðar
og Joan, sjá dæmi (9) hér að framan. Þeir
57